Fá gæludýrin okkar ,,Alzheimer“?
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 17. okt, 2009 • Flokkur: Hundar, KettirÖldrunarsjúkdómar sem leiða til minnisglapa eru vel þekktir hjá okkur mannfólkinu, en hefur til skamms tíma ekki verið mikill gaumur gefinn hjá gæludýrum og jafnvel taldir óþekktir hjá þeim.En með bættum lífskilyrðum dýra hefur lífaldur þeirra hækkað verulega og nú hefur athygli vísindamanna beinzt að sambærilegum sjúkdómum hjá þeim og manninum; sjúkdómum sem leiða til andlegrar hrörnunar og breytt atferlis.
Aldurstengd minnisglöp
Aldurstengd minnisglöp hafa verið staðfest bæði hjá hundum og köttum. Ástæður þeirra kunna að vera margvíslegar, en hrörnun heilans er afleiðing sjúkdóms sem á sér rætur í þeim hluta hans sem geymir minnið. Breytingar á gömlum hundsheila eru um margt sambærilegar breytingum í heilanum hjá fólki sem þjáist af Alzheimer sjúkdómi, þó prótínið (tau protein) sem er einkennandi fyrir sjúkdóminn í manninum, hafi ekki fundizt hjá hundum. Orsök minnisglapanna er sú að prótínið beta-amyloid safnast af ókunnum ástæðum fyrir í heilanum (bæði manna og dýra). Prótínið veldur eituráhrifum sem skemmir heilafrumurnar sem deyja í kjölfarið. Andstætt mörgum öðrum frumum líkamans sem endurnýjast sífellt, á það því miður ekki við um heilafrumurnar og eftir því sem fleiri heilafrumur deyja, ágerist sjúkdómurinn og einkennin verða meira áberandi.
Hugsanlega gera margir gæludýraeigendur sér ekki grein fyrir því, að breytt atferli gamla hundsins eða kisu geti stafað af sömu ástæðum og hjá fólki, þ.e. sjúklegum breytingum í heila. Við dýralæknar heyrum þó eigendur gamalla dýra oft segja, að atferli dýrsins minni verulega á breytingar hjá gömlum frænda sem er orðinn frekar utangátta og er það algjörlega rökréttur samanburður!
Einkenni sjúkdómsins fara eftir því hvaða svæði heilans skemmist og hve mikið, en oftast er það stóriheilinn sem skaðast mest, sem sagt það svæði sem geymir minnið.
Lífaldur gæludýra
Eins og allir vita eru hundar afar ólíkir að stærð og er meðallífaldur þeirra einnig æði mislangur. Og kettir geta orðið verulega gamlir og jafnvel náð rúmlega 20 ára aldri. Þó meðalævi stærstu hunda sé oft ekki meiri en 10 ár, geta smáhundar auðveldlega orðið 15 ára (og jafnvel eldri) og verið við líkamlega hestaheilsu lengst af. Þrátt fyrir líkur hunds eða kisu á að ná háum aldri, breytir það ekki þeirri staðreynd sem rannsóknir hafa sannað, þ.e. að öldrunareinkenni í heila hefjast við 8 ára aldur. Þar sem líkurnar á að smáhundar – og kettir, nái frekar hærri aldri en stórir hundar, eru einkenni minnisglapa þar af leiðandi mun algengari hjá þeim en stórum hundum, nema auðvitað þeim sem ná háum aldri. Reyndar er talið að breytingar í heila stórra hunda byrji þegar við 5 ára aldur – og jafnvel fyrr hjá einstaklingu sem tilheyra allra stærstu hundategundunum.
Rannsóknir hafa leitt í ljós, að um þriðjungur (30%) hunda 11 – 12 ára hafa einhver einkenni um andlega hrörnun sem eykst með hækkandi lífaldri og er um 70% hjá hundum á aldrinum 15 – 16 ára. Líkur á einkennum andlegrar hrörnunar og minnisglapa eru því verulegar hjá þeim hundum sem verða gamlir. Sambærilegar niðurstöður hafa fengist við rannsóknir á gömlum köttum, þ.e. að þriðjungur (28%) þeirra katta sem eru á aldrinum 11 – 14 ára sýna að minnsta kosti eina öldrunartengda breytingu á atferli sem og helmingur katta (> 50%) yfir 15 ára aldri. Einnig bendir margt til þess að hundar sem eru vanaðir sýni frekar einkenni elliglapa en óvanaðir hundar.
Minnið
Minnið er hundinum eða kisa ekkert síður mikilvægt en okkur hinum. Við minnistap gleymir dýrið lærðu atferli og daglegum athöfnum, þekkir jafnvel ekki eigandann, tekur upp ósiði sem það var vanið af í æsku og ratar jafnvel hvorki innanhúss né utan.
Minnistapið getur því haft veruleg áhrif á lífsgæði þess, verið álag á fjölskylduna og umhverfið og hindrað dýrið í eyða ævikvöldinu með reisn.
Algengustu einkenni elliglapa
Algengustu einkennum minnis- og elliglapa má skipta í 4 flokka sem eru: Áttavilla í tíma og rúmi, ómeðvirkni, breyttar svefnvenjur og ekki lengur húshreinn (DISH System = Dysorientaion, Interacts less, Sleep pattern disturbed, House training lost).
1. Áttavilla og áttamissir: Hundurinn virðist ekki lengur átta sig í kunnugu umhverfi bæði heima og heiman. Hann ratar t.d. ekki heim villist hann frá eigandanum og kisa gleynir hvar hún býr. Dýrin geta ráfað um og árvekni og varðeðli dvínar.
2. Ómeðvirkni: Þreyta og hik og áhugi á samneyti og samveru við eiganda eða fjölskyldu minnkar. Breyting verður á föstum venjum, dýrið gleymir daglegri rútínu og verður eins og í eigin heimi.Það leitar hvorki eftir að láta klappa sér eða fagna fjölskyldumeðlimum þó í öðrum tilfellum virðist sem það verði óöruggara og vilja alls ekki vera eitt. Getur síður eða alls ekki lært nýja hluti – eða er lengur að því.
3. Breyting á svefnvenjum: Svefnvenjur breytast og ráp og óróleiki er að næturlagi, en sofið að deginum. Hundar geta gelt og gelt án nokkurrar sýnilegrar ástæðu.
4. Ekki lengur húshreinn: Hundurinn biður ekki lengur um að fara út þegar þess þarf og á erfiðara með að halda í sér. Verði slys virðist hann samt skynja að allt er ekki í lagi. Kisa ,,man“ ekki lengur til hvers á að nota sandkassann.
Sjúkdómsgreining
Því miður eru ekki til nein próf til að staðfesta að um aldurstengd minnisglöp sé að ræða, eins og mögulegt er hjá okkur mannfólkinu. Atferli gamals dýrs með byrjandi minnisglöp breytist hægt og sígandi og getur eigandinn átt erfitt með að segja hvenær breytingin raunverulega hófst. Stundum er breytt atferli tengt ,,sérvizku“ og það er ekki fyrr en breytingin á því er það áberandi, að ekki má bara kenna sérvizku um. Dýralæknirinn þarf að skoða hundinn eða kisa vel og ganga úr skugga um að það séu ekki líkamlegir kvillar, svo sem gigt, sem eru orsök breyttrar hegðunar. Mikilvægt er að spyrja eigandann vel um þær breytingar sem hafa átt sér stað á daglegu atferli hundsins eða kisa og hve lengi þær hafa varað til að geta gert staðfest eins vel og það er mögulegt að um andlega hrörnun sé að ræða.
Skipta má einkennum upp í byrjunareinkenni minnisglapa (predementia), minnisglöp (dementia) og alvarleg minnisglöp (advanced dementia) eftir því hve alvarleg einkennin eru miðað við skilgreinngarnar hér að ofan. Séu einkennin fá, kannski bara eitt má telja breytingarnar vægar, en séu þau 2 – 3 verður að telja að dýrið hafi minnisglöp og þau alvarleg falli einkennin undir alla flokkana.
Meðferð
Gamalt dýr með vægari einkenni minnisglapa getur vel eytt síðustu æviárunum með reisn, sé það að öðru leyti hraust. Hrörnun í heila er sjúkdómur rétt eins og sjúkdómar í öðrum líffærum sem mögulegt er að meðhöndla að vissu marki, bæði með lyfjum ásamt þjálfun og æfingum sem örva heilastarfsemina.
Til er lyf sem má nota gegn minnisglöpum hjá hundum, en eru sjaldan eða ekki notuð fyrir ketti. Lyfið, sem er lyfseðilskylt, má einungis nota í samráði við dýralækni. Á meðan þarf hundurinn að vera undir stöðugu eftirliti læknisins því ganga þarf úr skugga hvort lyfið hafi tilætluð áhrif eða ekki sem kemur ekki í ljós fyrr en eftir nokkrar vikur. Tilraunir sýndu að 77% hunda sem fengu lyfið hresstust fyrsta mánuðinn eftir að lyfjataka hófst, en að síðan hægði á batanum.
Fóður
Eins og áður segir verður aukning á prótínum í heilanum sem valda skemmdum í þeim stöðvum heilans sem geyma minnið. Á markaðnum er fóður sem getur hjálpað. Það inniheldur andoxunarefnin (C og E vítamín) og lífsnauðsynlegar fitusýrur eins og Omega 3, en þessi efni hægja á framleiðslu prótínanna sem skemma minnisstöðvar heilans og hugsanlega geta þau einnig bætt skemmdirnar að einhverju leyti.
Þjálfun og daglegar æfingar
Það sama á við um dýr og um fólk; gamla heila þarf að þjálfa bæði með andlegri og líkamlegri þjálfun!
Krossgátur og sudoku henta okkur tvífættum, en hundinum eða gömlu kisu ekki! Hins vegar eru til margs konar þrautir sem hundurinn þarf að nota ,,heilann“ til að leysa – eða læra að leysa og þótt gaman að. Þær hvetja ekki aðeins hundinn, heldur stuðla líka að meiri samveru hunds og eiganda sem er hundinum aldrei meira virði. Auðvitað getur gigt hamlað hreyfingu og lengri gönguferðum eða æfingum sem reyna á liði, en sund er t.d. góð æfing fyrir bæði sál og líkama. Hafi hundurinn tækifæri til að synda og svamla, verður þó að gæta þess vel að honum verði ekki kalt eftir sundið. Það verður að þurrka hann vel og setja jafnvel í peysu og inn í heitan bíl á eftir.
Það ætti líka að vera auðvelt að virkja kisu, t.d. láta hana elta bandspotta sem henni efalaust þótti svo skemmtilegt að gera á æskuárunum, elta nammibita og eitthvað í þeim dúr. Ekki ætti að láta gamla ketti vera úti eftirlitslausa, því þeir eiga það til að hverfa, kannski einmitt vegna þess að þeir gleyma hvar þeir eiga heima. Gamlar kisur eru einnig viðkvæmari fyrir kulda og raka og leita þess vegna inn í geymslur eða bílskúra og geta þá lokast þar inni.
Mikilvægt er að eigendur gamalla dýra geri sér grein fyrir því, að með háum aldri getur fylgt breytt atferli sem getur verið íþyngjandi fyrir alla, bæði dýr og menn. Það erfiðasta við að eiga dýr er að taka þá þungbæru ákvörðun að hvíld sé bezta lausnin fyrir góðan vin, en á þeim stundum verður að muna að hafa hagsmuni dýrsins í fyrsta sæti.
Heimildir:
- Rikke Fast. , DVM. Hunden. DKK.Desember 2008.
- J. Alberto Montoya Alonso. DVM. Faculty of Veterinary Medicine – University of Las Palmas de Gran Canaria.
- Joel Dehasse, DVM, D-ECVBM-CA. Danielle Gunn-Moore. Specialist in Feline , Royal School of Veterinary Studies
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað