Liðhlaup í hnéskel (Patella luxation)
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 26. maí, 2004 • Flokkur: HundarFramanlærisvöðvinn endar í sin, hnésininni, sem festist efst á sköflunginum (tibia), en bandvefsfestingar halda hnéskelinni fastri til beggja hliða liðarins og undir eðlilegum kringumstæðum er alls ekki mögulegt að ýta henni úr grófinni.
Liðhlaup í hnéskel er því skilgreint sem það óeðlilega ástand, að hægt sé að ýta hnéskelinni úr grófinni, annað hvort inn að miðju, miðlægt eða til út hliðar, hliðlægt.
Miðlægt liðhlaup í hnéskel er algengast hjá smáhundum og oftar tíkum en hundum. Hliðlægt liðhlaup sést bæði hjá litlum og stórum hundum og getur tengst mjaðmalosi hjá stórum hundategundum. Liðhlaup í hnéskel er einnig þekkt hjá köttum en er afar sjaldgæft.
Til gamans má geta, að hliðlægt liðhlaup í hnéskel er algengasta tegund liðhlaups hjá manninum og virðist samsvara hliðlægu liðhlaupi hjá hundum.
Hugsanlega er miðlægt og hliðlægt liðhlaup í hnéskel ekki einn og sami sjúkdómurinn, þar sem orsakir hans og tíðni er ekki sú sama.
Orsakir liðhlaups
Liðhlaup í hnéskel verður sjaldnast vegna ytri áverka, heldur er oftast um meðfædda, arfgenga veilu að ræða sem þekkist í öllum hundategundum. Vaxi fóturinn ekki rétt á vaxtartímabilinu, verður afstaða lærleggjar, fótleggjar, mjaðmagrindar og hækils hvers til annars röng sem og lega mjúkvefjanna með þeim afleiðingum, að lengdaröxullinn færist til og einnig lega framanlærisvöðvans. Skökk fótstaðan veldur röngu togi í festingarnar sem eiga að halda hnéskelinni fastri í grófinni og hún hleypur til og við segjum að hnéskelin sé „laus“.
Myndin sýnir hvernig fótstaðan er rétt (A) og hverning hnikun á lengdaröxlinum breytir togi framanlærisvöðvans (Q) á hnéskelina (B,C).
- A: Beinn afturfótur með réttum öxli og þar með réttu togi vöðvans (Q) svo hnéskelin helst í grófinni framan á lærleggnum.
- B: Miðlægur snúningur á sköflungi (T) og lærlegg (F) með þeim afleiðingum að lengdaröxull fótarins verður miðlægur og um leið tog vöðvans (Q) á hnéskelina.
- C: Hliðlægur snúningur á sköflungi (T) og lærlegg (F) með þeim afleiðingum að lengdaröxull fótarins verður hliðlægur og um leið tog vöðvans á hnéskelina.
Sjúkdómsgreining
Algengast er að liðhlaup í hnéskel uppgötvist ekki fyrr en hundurinn heltist, þó stundum greinist liðhlaup við almenna heilbrigðisskoðun. Því alvarlegri sem veilan er, því fyrr uppgötvast hún auðvitað. Í vægustu tilfellunum eru flestir hundar sem betur fer algjörlega einkennalausir og hafa fulla hreyfigetu ævina á enda.
Greiningin byggist á klíniskri skoðun og útilokun á því að heltin stafi af öðrum ástæðum, t.d. slitnum krossböndum í hné. Skoða verður vel bæði hné, því í fjórðungi tilfella er hnéskelin laus beggja megin.
Skoðunin er einföld og með því að ýta á hnéskeljarnar gengur dýralæknirinn úr skugga um það hvort hægt sé að færa hnéskelinni úr farinu eða ekki. Erlendis er greining með röntgenmyndatöku ekki tekin gild, aðeins hvort hægt hafi verið að hnika hnéskelinni til eða ekki með „handafli“.
Klíniskt er hægt að flokka liðhlaup í hnéskel í 4 gráður eftir því hve laus hnéskelin er (0 = föst hnéskel):
- Gráða 1: Hnéskelin er á sínum stað og þó mögulegt sé að ýta henni til, skreppur hún jafnharðan á sinn stað.
- Gráða 2: Hnéskelin liggur í grófinni, en auðveldlega má hliðra henni án þess að hún skreppi til baka.
- Gráða 3: Liðhlaupið er viðvarandi og hnéskelin er föst utan grófarinnar. Með því að rétta úr fætinum er hægt að ýta henni í grófina, en þaðan skreppur hún um leið og hnéð er beygt.
- Gráða 4: Hnéskelin liggur það skorðuð utan grófarinnar að ekki er mögulegt að koma henni aftur á sinn stað. Fóturinn er krepptur og ekki er hægt að rétta úr hnéliðnum vegna herpings í framanlærisvöðvanum.
Að lokinni skoðun gefum við hér á stofunni út svohljóðandi vottorð:
Vottorð um los á hnéskel
Undirritaður dýralæknir hefur í dag skoðað hné á neðangreindum hundi
Nafn hunds: Ættbókarnúmer:
F.d.: Örmerki:
Kyn: Litur:
Faðir: Ættbókarnúmer:
Móðir: Ættbókarnúmer:
Eigandi:
Heimilisfang:
Símanúmer: Gsm – númer:
NIÐURSTAÐA SKOÐUNAR
Vinstri hnéskel:
Lýsing: Gráða :
Hægri hnéskel:
Lýsing: Gráða:
Við rannsókn stóð hundurinn rétt í fætur og hafði náð 12 mánaða aldri.
Stimpill dýralæknis Reykjavík,
Helga Finnsdóttir, dýralæknir
Skýring á gráðum
0 = hnéskelinni verður ekki hnikað til úr grófinni.
1 = mögulegt er að ýta hnéskelinni úr grófinni, en hún smellur strax aftur á sinn stað.
2 = hnéskelin liggur utan grófarinnar þar til henni er ýtt á sinn stað eða hnéliðurinn er réttur.
3 = hnéskelin liggur að jafnaði utan grófarinnar, en mögulegt er að ýta henni á sinn stað þaðan sem hún skreppur á nýjan leik um leið og hnéliðurinn beygist.
4 = hnéskelin er föst utan grófarinnar.
Einkenni liðhlaups
Einkennin eru venjulegast í réttu hlutfalli við bæklunina; því minni sem hún er, því vægari eru einkennin. Í verstu tilfellum getur bæklunin valdið hundinum varanlegri örkumlun.
- Gráða 1: Venjulegast eru einkennin lítil sem engin, en stundum getur liðhlaupið verið þrálátt og hundurinn verið haltur tímabundið, en þess á milli einkennalaus.
- Gráða 2: Lítið þarf til þess að hnéskelin hlaupi til, jafnvel aðeins að hundurinn beygi eða rétti úr fætinum. Hnéskelin helst utan grófarinnar þangað til hún er færð þangað aftur og á meðan er hundurinn haltur. Gráða 2 getur þróast í gráðu 3.
- Gráða 3: Hundurinn getur ekki rétt úr hnéliðnum en rétt tyllir í fótinn og er verulega haltur. Ástandið getur versnað og orðið að gráðu 4.
- Gráða 4: Hnéliðurinn er varanlega krepptur sem gerir það að verkum að hundurinn getur ekki gengið eðlilega og er nánast örkumlaður.
Meðferð
Sé meðferðar þörf felst hún í skurðaðgerðum og þeim stundum flóknum. Ýmist eru búin til ný liðbönd eða skrekkt á þeim sem fyrir eru, festingar fluttar til eða fótstaðan lagfærð með beinaaðgerðum. Vega verður og meta í hverju tilfelli fyrir sig hvaða aðgerða er þörf og hverjar batahorfurnar eru.
Liðhlaup í hnéskel er arfgengur sjúkdómur. Ekki hefur enn tekist að skilgreina ástæðu hans né hvernig hann erfist. Mikilvægt er því að fylgjast með heilbrigði stofnsins og nota einungis heilbrigð dýr til undaneldis.
Liðhlaup í hnéskel hjá köttum
hefur verið staðfest þó fátítt sé. Það getur verið beggja megin og stundum er það samfara mjaðmalosi og er venjulegast miðlægt.
Heimildir
- Patellaluxation. Lars Lønaas. Hund, Avl og Helse.. Smådyrspraktiserende Veterinærers Forening. Oslo 1991
- Textbook of Small Animal Orthopaedics, Newton C.D. and Nunamaker D.M. (Eds.)
Ithaca: International Veterinary Information Service, 1985; B0082.0685 - Current Tecniques In Small Animal Surgery. M.Joseph Bojrab. Williams & Wilkins 1998
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað