Langvinnur hjartalokusjúkdómur í cavalierhundum
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 28. sep, 2003 • Flokkur: HundarEftirfarandi grein er eftir Clarence Kvart, dýralækni, rituð í Uppsölum í september 2000.
Hrörnun í hjartalokum milli gáttar og slegils er algengur hjartasjúkdómur í cavalierhundum. Niðurstöðum rannsókna í Englandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og Svíþjóð ber öllum saman um að tíðni hjartamurrs í cavalierhundum aukist verulega frá 5 ára aldri.
Hjartalokuhrörnun með stigvaxandi hrörnun gátta- og sleglaloka er algengasti áunni hjartasjúkdómurinn í hundum. Sjúkdómurinn leggst einkum á smáhunda og er talið að arfgengir þættir sem hafa áhrif á niðurbrot kollagenþráða og uppsöfnun glúkósamínglúkans í hjartalokum séu fyrir hendi. Sjúkdómurinn er oft langvinnur en getur uppgötvast snemma heyrist murr við hjartaskoðun.
Þegar hjartalokuhrörnunin er hægfara, nær hjartað að bæta skerta starfsgetu með stækkun hjartavöðvans (hjartastækkun og hjartavíkkun). En því yngri sem hundurinn er þegar hann fær murr, því meiri líkur eru á að hann deyi úr hjartabilun um aldur fram. Hjá flestum öðrum hundategundum en cavalierhundum, kemur murrið hins vegar seint fram, er sem sé öldrunarsjúkdómur og hundarnir ná gamals aldri eða deyja af öðrum orsökum áður en hjartað bilar. Öðru máli gegnir hins vegar með cavalier king Charles spaníelhunda. Þar er vandamálið að hjartabilunarinnar verður vart hjá ungum hundum og getur dregið þá til dauða áður en meðalaldri er náð. Meðferð við sjúkdóminum felst í notkun viðeigandi lyfja. Við lungnabjúg og vökvasöfnun í kviðarholi er auðvelt að meðhöndla með góðum árangri með þvagræsilyfjum (furosemid), oft í samsetningu með ACE hemlum (enalapril) og aðsvif og hjartsláttaróreglu er hægt að meðhöndla með hálfum skammti af digitalis (Lanoxin).
Murr af völdum hrörnunar í hjartalokum heyrist sjaldan hjá cavalierhundum yngri en 2-3 ára. Heyrist murr hjá ungum hundum eða hvolpum, er það oftast murr sem á sér eðlilega líffræðilega orsök (hættulaust blísturshljóð) eða getur stafað af meðfæddum hjartagalla. Þrenging lungnastofnæðaróss (pulmonary stenosis) og viðvarandi slagæðarás (PDA), sem er leifar æðartengingar milli ósæðar og lungnaslagæðar á fósturskeiði, er þekkt í tegundinni. Tíðni beggja þessara meðfæddu hjartagalla er ennþá lág, lægri en 1%, bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Það er því afskaplega mikilvægt að huga vel að heilbrigði undaneldisdýra til að koma í veg fyrir auka tíðni þessara erfðagalla
Sænsk rannsókn á ættgengi hjartalokuhrörnunar hjá undaneldisdýrum, hvort sem þau eru ung, miðaldra eða gömul sýndi, svo ekki varð um villst, að tilheiging til að fá þennan hjartasjúkdóm er mjög arfgeng. Eigi að vera unnt að sigrast á hjartalokusjúkdómum, má til undaneldis einungis nota dýr sem eiga fullorðna, heilbrigða foreldra. Regluleg hjartaskoðun allra undaneldisdýra, einnig þegar þau eldast og eru ekki lengur notuð í ræktun, er því algjör forsenda þess að hægt sé að velja úr heilbrigðustu ræktunardýrin.
Um það bil 50% sænskra cavalierhunda á aldrinum 6-7 ára greinast með murr. Sambærileg niðurstaða fékkst við skoðun 130 hunda á Íslandi í ágúst s.l.. Þrátt fyrir murrið líður flestum hundanna mjög vel, þó vitað sé að 10% hunda á aldrinum 7-10 ára þurfi á hjartalyfjum að halda (miðað við 0.7% hunda annarra hundategunda).
Dánartíðni eykst með aldrinum og að meðaltali deyja 10% hundanna af hjartasjúkdómi fyrir 10 ára aldur, þ.e. einn af hverjum 10 cavalierhundum. Rannsókn á sænskum cavalierhundum sýndi að meðalaldur þeirra hunda sem dóu eða voru aflífaðir af völdum hjartasjúkdóma var að jafnaði 10.5 ár og að meðaltali liðu 3-4 ár frá því að hundur greindist með murr og þar til yfir lauk. Frávik frá þessari meðalreglu er þó þekkt, svo einhverjir hundar lifa lengur eða skemur en meðalreglan segir til um (2-7 ár). Frá því að tölfræðilegar rannsóknir hófust í Svíþjóð árið 1982 á þessum sjúkdómi í tegundinni hefur því miður lítið áunnist.
Há tíðni arfgengni eykur möguleikana á að hægt sé að sigrast á þessum hjartasjúkdómi og smátt og smátt hækka aldurinn þar sem murrið, sem er einkenni sjúkdómsins, gerir vart við sig. Eigi þetta hins vegar að vera mögulegt, verður ástand hjartans að vera þekkt (gráða murrs) hjá foreldrum undaneldishundanna. Þar sem murrið kemur oftast fram frá 5 ára aldri verða foreldrar undaneldishundanna að vera 5 ára eða eldri. Ein leið að settu marki er að rækta aldrei undan cavalierhundum yngri en tveggja og hálfs árs. Lennart Swensson erfðafræðingur ráðlagði sænsku cavalierræktunardeildinni strax í byrjun 9. áratugarins þessa leið, en það er fyrst núna sem einhver viðbrögð verða við ráðleggingum hans, en þó ekki nema að hluta. Farið er fram á að lágmarksaldur undaneldisdýra verði 2 ár og þar með 4 ár fyrir foreldra undaneldisdýranna sem er afleitt. Afar fáir hundar yngri en 5 ára greinast með murr og þar af leiðandi eru engir möguleikar á að meta hverjir þeirra eru heppilegastir ræktunarlega séð, eins og best sést á niðurstöðum hjartaskoðunarinnar hér.
Eigendur þeirra cavalierhunda sem hafa greinst með murr en eru enn einkennalausir og líður vel, vilja auðvitað gjarnan fá að vita hvort eitthvað sé hægt að gera, eða forðast, til að seinka væntanlegum einkennum hjartabilunarinnar. Svarið er einfaldlega nei. Í dag finnast engin þekkt lyf sem geta hindrað framvindu hjartalokuhrörnunarinnar.
Viðamikil skandinavisk rannsókn sem var gerð á yfir 200 cavalierhundum til að athuga hvort ACE hemlandi hjartalyf myndu seinka hjartabilun, leiddi því miður í ljós að þessi lyf hefðu engin slík áhrif. Einlægasta ráðið til eigenda cavalierhunda sem hafa greinst með murr, er að njóta þeirra og leyfa þeim að lifa sem eðlilegustu lífi eins lengi og unnt er, sem getur verið frá tveimur og upp í sjö ár frá því að hundurinn greinist með murr. Mælt er með eðlilegri hreyfingu og fóðrun (ekki með saltsnauðu fóðri) til að byggja upp gott þrek og viðhalda kjörþyngd.
Helga Finnsdóttir dýralæknir tók þátt í hjartaskoðuninni og hlustaði alla 130 cavalierhundana og sannaði við það tækifæri þekkingu sína í að hlusta og greina murr. Óhætt er að benda eigendum cavalierhunda að snúa sér til hennar við heilbrigðisskoðun á hjarta almennt eða áður en hundurinn er notaður til ræktunar. Það er engin ástæða fyrir eigendur cavalierhunda með murr að bera kvíðboga fyrir einhverju sem hugsanlega getur gerst og auka þar með á áhyggjurnar. Fyrr eða síðar verðum við að horfast í augu við þá staðreynd, að hversu vænt sem okkur þykir um hundinn okkar, þá rennur hin óumflýjanlega skilnaðarstund upp fyrr eða síðar.
Í sænsku rannsókninni sem getið er hér að framan, kom í ljós að meðalaldur þeirra cavalierhunda sem hafa greinst með murr er 10.5 ár við aflífun vegna hjartabilunar. Þar sem tíðni murrs í cavalierhundum á Íslandi er sambærileg við tíðni murrs í sænskum hundum (mynd 2) má ætla að meðalaldur hunda með murr sé sá sami hér á landi. Frávik frá þessum meðalaldri geta verið allt að þrjú ár sem þýðir að stundum missum við góðan vin fyrr en skyldi en getum líka notið hans lengur en búast mátti við.
Cavalier king Charles spaníel er sérstaklega ljúfur, tryggur og þægilegur hundur sem hentar jafnt einstaklingum sem fjölskyldum. Kaupandi hvolps ætti að spyrjast fyrir um „hjartaástand“ foreldra undaneldisdýranna sem eiga að vera bæði eins gamlir og með eins heilbrigt hjarta og mögulegt er.
Cavaliereigandi verður að vera meðvitaður um líkur á skemmri meðalaldri hundsins síns vegna hjartasjúkdóms, sem er auðvitað miður, en aðrir kostir hundsins vega ríflega upp á móti því.
Á vefsíðu cavalierdeildarinnar má lesa allt um leiðbeiningar og reglur um undaneldi cavalierhunda.
Heimildir
1.) Darke P G G: Valvular incompetence in Cavalier Kong Charles spaniels (1987) Vet. Rec., 120:365-366
2.)Häggström J., Hansson K., Kvart C., Swenson L: (1992) Chronic valvulardisease in the Cavalier King Charles spaniel in Sweeden. Vet. Rec., 131:549-553
3.) Malik R., Hunt G.B., Allan G. S., (1992) Prevalence of mitral valve insufficiency in Cavalier King Charles spaniels. Vet. Rec. 130: 302-303
4.) Beardov A. W.,and J. W. Buchanan: (1992) Chronic mitral valve disease in Cavalier King Charles spaniels: 95 cases (1987-1991). JAVMA vol 203, No 7:1023-1029
5) Häggström J. U., C. Kvart and K. Hansson (1994). Heart sounds and murmurs: Changes related to severity of cronic valvular disease (CVD) in Cavalier King Charles spaniels. Accepted for publication in Journal of Veterinary Internal Medicine. J Vet Int Med 1995: 9: 75-83
6.) Swenson L., Häggström J., Kvart C., and Juneja K. (1996) relationship between parenteral cardiac status in Cavalier King Charles spaniels and prevalence and severity og chronic valvular disease in offspring. J Am Vet Med Assoc: 208:2009-2012
7.) Häggström J., R.L. Hamlin, K. Hansson and C. Kvart. (1996) Heart rate variability in relationto severity of mitral regurgitation in Cavalier King Charles spaniels. Journal of small animal practice 37. 69-75
8.) Sisson D., Kvart C. and P.G.G. Darke. (1999) Aquired valvular disease in dogs and cats. Chapter 25 in canine and Feline Cardiology, second edition Textbook from Saunders by Fox, Sisson and Moise.
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað