Kórónaveiran, hundar og kettir!
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 15. mar, 2020 • Flokkur: AlmenntCOVID – 19 veiran átti upptök sín í kínversku borginni Wuhan í Kína að því talið er í desember á síðasta ári, en hér á Íslandi greindust fyrstu tilfellin í lok febrúar. Síðan þá hefur tilfellum fjölgað afar hratt og æ fleiri hafa þurft að sæta sóttkví og jafnvel einangrun vegna veikinda.
Kórónaveirur tilheyra stórri fjölskyldu veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá bæði mönnum og dýrum. Hjá fólki er veiran oft orsök kvefs, en getur einnig valdið alvarlegri lungnabólgu eins og getur verið raunin með sjúkdóminn COVID-19.
Allir geta smitast, en sem betur fer verða fæstir alvarlega veikir. Eins og fram hefur komið hjá heilbrigðisyfirvöldum, er það aðallega eldra fólk og einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma sem eru í mestri hættu.
Kórónaveirur (alfacoronaveirur) valda nokkrum algengum sýkingum hjá hundum og köttum. Hjá hundum veldur hún magakvillum eins og niðurgangi. Hjá köttum veldur veiran líka niðurgangi, en getur einnig leitt til mun alvarlegri veikinda eins og smitandi lífhimnubólgu (FIP/Feline Infectious Peritonitis) sem veldur í flestum tilfellum dauða kisu.
Mikilvægt er að taka fram, að það eru engar vísbendingar um að gæludýr geti veikst af völdum veirunnar eða verið smitberar. Sá möguleiki er aðeins talinn vera fræðileg smitleið – en ekki þýðingarmikill eins og fram hefur komið.
Mörgum brá því nokkuð þegar fréttir þess efnis birtust, að veiran hafi fundist í hundi kínversks eiganda sem var smitaður. Talið er einna líklegast að veiran hafi sezt á slímhúðina í munnholi og nefi hundsins eða jafnvel á feldinn og þess vegna hafi sýnin frá honum sýnt væga, jákvæða svörun.
12. marz s.l. kom tilkynning frá kínversku matvælastofnunni (Agriculture, Fisheries and Conservation Department – AFCD) þess efnis, að sýni frá umræddum hundi, sem höfðu áður endurtekið sýnt væga jákvæðni fyrir COVID – 19, væru nú neikvæð.
19. marz bárust svo aftur þau tíðindi frá Kínversku matvælastofnunni (AFCD), að hundur annars smitaðs eiganda hafi endurtekið greinst jákvæður fyrir COVID-19 veirunni. Á því heimili voru tveir hundar, en aðeins annar þeirra reyndist jákvæður. Hvorugur jákvæðu hundanna hafa hins vegar sýnt minnstu einkenni um veikindi. Í áliti frá Alþjóðasamtökum dýralækna núna (23. marz) kemur fram, að það séu engin dæmi um að dýr hafi veikst eða smitað eigendur. Sýni hafa verið tekin frá þúsundum hunda og katta og reyndust þau öll neikvæð, en því miður munu vera dæmi þess, skv. samtökunum, að fólk hafi látið aflífa dýrin sín af ótta við smit.
Kettir
Rannsóknir telja að af þeim dýrategundum sem hafa verið rannsakaðar hingað til, séu kettir einna móttækilegastir fyrir COVID-19. Tilraunir á rannsóknarstofum hafa leitt í ljós að smit getur borizt á milli katta, þ.e. að smituð kisa getur smitað aðra kisu en er talið vera afar sjaldgæft. Matvælastofnun Belgíu hefur þó tilkynnt um tilfelli þar sem kisa, í eigu smitaðs einstaklings, greindist ekki bara jákvæð fyrir COVID-19 heldur sýndi einnig einkenni frá meltingarvegi og öndunarfærum og fannst veiran í uppkasti og saursýnum. Samkvæmt heimildum OIE (World Organization For Animal Health) hefur þetta þó ekki fengist endanlega staðfest (31. marz 2020). Kisa mun hins vegar vera á góðum batavegi.
Hundar eru hins vegar ekki taldir eins móttækilegir fyrir sýkingu og kettir, þó dæmi séu um að veiran hafi fundizt hjá þeim og hvorki svín og hænsni eru móttækileg fyrir sýkingu af völdum SARS-CoV-2 veirunnar.
Þekking á veirunni COVID-19 er reyndar enn nokkuð takmörkuð. Nýjustu rannsóknir bandarískra vísindamanna sýna að veiran getur lifað í loftinu í allt að 3 klst., á yfirborði kopars í 4 klst, á yfirborði pappa í sólarhring og á plasti og ryðfríu stáli í 2 – 3 sólarhringa, en ekki er þó talið útilokað að dýr geti borið veirur á húð, feldi eða slímhúð í nokkurn tíma eftir snertingu við smitandi eiganda/fólk eins og kemur fram um hundana í Kína. Þessar niðurstöður styrkja einfaldlega þær mikilvægu ráðleggingar sem við heyrum daglega, þ.e. að þvo hendur vel og vandlega með sápu, halda góðri fjarlægð á milli sín og annarra og sótthreinsa hluti og yfirborð sérstaklega vel.
Óneitanlega vakna margvíslegar spurningar hjá gæludýraeigendum vegna þessarar nýju veiru, t.d. spurningar eins og:
Getur kórónaveiran (COVID-19) smitað hundinn minn eða kisa – eða þau mig?
Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að veiran geti smitað gæludýr – né að þau geti verið uppspretta smits í fólki, enda smitast veiran fyrst og fremst milli fólks. Samkvæmt Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni (OIE) hafa engar upplýsingar borist þess efnis að dýr geti veikst af veirunni. En allur er varinn góður meðan þekking á sjúkdómnum er takmörkuð.
Á ég að koma í veg fyrir að hundurinn minn komist í snertingu við aðra hunda?
COVID – 19 er ekki sjúkdómur í hundum eða köttum. Það er heldur ekkert sem bendir til þess, né nein dæmi um að hundurinn geti verið smitberi, þ.e borið smit í aðra hunda sem geti þá borið sjúkdóminn í fólk. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að hundar hittist og leiki sér saman.
Margir sjúkdómar smitast hins vegar á milli hunda, en sem betur fer má bólusetja gegn sumum þeirra eins og t.d. smáveirusóttinni. Öðrum hættulegum og smitandi sjúkdómum verjumst við hér á landi með einangrun innfluttra dýra til að forðast óteljandi, bráðsmitandi og alvarlega veiru- og sníkjudýrasjúkdóma sem enginn vill fá í sinn hund eða kött.
Eins og áður segir er þekking á veirunni COVID-19 í fólki enn takmörkuð og á meðan svo er, ber þeim einstaklingum sem hafa greinzt með smit að hafa í heiðri þá gullnu reglu að reyna að takmarka útbreiðslu smitsins. Rannsóknir sýna, eins og að ofan greinir, að veiran getur lifað skemur eða lengur á ýmsum snertiflötum og hugsanlega einnig einhvern tíma á feldi hunda (katta?) smitaðra eigenda.
Hvað ef eigandinn er sjálfur í sóttkví?
Full ástæða er til að gæta fyllsta öryggis og því skynsamlegt að bæði eigandi og hundur haldi sig frá öðrum tví- og ferfættum, enda eigandinn í sóttkví!
Er í lagi að kisi, sé hann útiköttur, fari frjáls ferða sinna?
Það ætti ekki að vera nein ástæða til þess að loka kisa inni nema eigandinn sé sjálfur í sóttkví eða smitaður. Þá er full ástæða til að loka kisa inni til að gæta fyllsta öryggis.
Smitaður eigandi?
Sé eigandi greindur með, eða er veikur af COVID-19 og í einangrun, má hann auðvitað ekki fara út eða á meðal fólks. Þá verður að hleypa hundinum eða kisa einungis út í lokaðan garð (kisu í bandi) og koma þannig í veg fyrir snertingu við önnur dýr eða fólk – og muna að hirða upp eftir bæði hund og kött.
Hvað ef eigandinn er smitaður með COVID -19
Sé eigandi smitaður af COVID-19 er ráðlagt að forðast náið samneyti við gæludýr, kyssa þau og faðma. Þar sem talið er að veiran geti lifað í tvo sólarhringa utan mannslíkamans, getur gæludýr, þó það veikist ekki sjálft, hugsanlega borið veiruna með sér t.d. á feldinum þó smit frá gæludýri í fólk sé óþekkt, en allt er þetta enn mjög óljóst og einnig ósennilegt.
Eftirfarandi ráðleggingar ætti því að hafa í huga:
- Takmarka samneyti við gæludýr þar til viðkomandi hefur náð heilsu.
- Koma dýrinu fyrir í pössun.
- Forðast að kyssa og knúsa dýrið, vandlegur handþvottur fyrir og eftir snertingu og jafnvel andlitsgríma.
Dýralæknir?
Þurfi gæludýr smitaðs einstaklings (COVID-19) á dýralæknishjálp að halda, er rétt að fá heilbrigðan einstakling til að fara með dýrið til dýralæknisins og upplýsa hann um aðstæður.
COVID-19 er sjúkdómur sem er nýlega kominn fram á sjónarsviðið og þekking á veirunni eykst sem betur fer hægt og sígandi vegna rannsókna. Hreinlæti og handþvottur eru þau atriði sem mest áherzla er lögð á til að tefja smit og eru gæludýraeigendur því eindregið hvattir til að viðhafa fyllsta hreinlæti í umgengni við öll gæludýr og allt er viðkemur þeim.
Veikir einstaklingar ættu jafnframt að forðast dýr og verði einhver breyting á heilsufari þess ætti strax að hafa samband við dýralækni.
Heimildir:
WHO
covid.is
AFCD – kínverska matvælastofnunin
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað