Fryst sæði, kostnaður og kröfur!
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 16. jún, 2008 • Flokkur: Almennt, HundarMikill ávinningur er fyrir hundaræktendur á Íslandi að geta bætt ræktun hundastofna hér á landi með sæði beztu undaneldishunda sem völ er á í heiminum hverju sinni.
Með ræktun er átt við það að afkvæmin verði betri en foreldrarnir, en heilbrigði einstaklingsins er sannarlega ekki síður mikilvægt.
Við val á undaneldishundi þarf einnig að gæta vel að heilbrigðisástandi í því landi þar sem hundurinn býr, en því miður er ekki alltaf öllu að treysta hvað það varðar.
1. Kostnaður?
Efalaust velta margir fyrir sér hver kostnaðurinn er við innflutning og sæðingu með frystu sæði, en erfitt er að gefa upp ákveðið heildarverð, því þar eru margir kostnaðarliðir sem geta verið anzi breytilegir.
Það getur verið mjög misjafnt hvaða verð hundeigandinn setur upp fyrir sæði og fer það auðvitað að nokkru leyti eftir því hve þekktur, eða vinsæll, hundurinn er. Sumir selja skammtinn, jafnvel örfá strá, dýrum dómum, aðrir taka fyrir hvern fæddan hvolp en allt fer þetta eftir því hvaða samkomulag tekst á milli seljanda og kaupanda.
Það er hins vegar alltaf tíkareigandinn sem ber allan lækniskostnaðinum sem fylgir þeim kröfum em gerðar eru til innflutnings á sæði, s.s. rannsóknir á hundinum og bólusetningar. Þar við bætist síðan umtalsverður kostnaður við sæðistökuna, frystingu þess og sendingu á áfangastað – og jafnvel ferðakostnaður hundeigandans til og frá dýralækninum!
Hér á stofunni þarf síðan að greiða fyrir móttöku og geymslu sæðisins, sem er 6 mánuðir að lágmarki, samkvæmt gjaldskrá Dýralækningastofu Helgu Finnsdóttur.
2 . Sæðið
Byrja þarf á því að velja þann hundinn sem áhugi er á að nota og hafa samband við eiganda hans. Skynsamlegast er að velja ungan og hraustan hund, því frysting á sæði reynir á og veikir sáðfrumurnar. Það er m.a. ástæða þess að sæðing með frystu sæði gefur ekki jafn góðan árangur og náttúruleg pörun.
Athugið að aðeins er tekið á móti sæði frystu í stráum til geymslu, en ekki í töflum (pellets)!
3. Heilbrigði
Hundurinn:
Það er mjög mikilvægt er að benda tíkareigandanum á að kanna vel almennt heilbrigði hundsins eins og einnig hvort hann hafi gefið heilbrigð og góð afkvæmi. Einnig þarf að ganga úr skugga um, að niðurstöður allra skoðana sem krafist er fyrir viðkomandi kyn, séu fyrir hendi og í lagi. Hafi hundurinn aldrei átt hvolpa, er auðvitað rennt nokkuð blint í sjóinn með gildi hans sem undaneldishunds og árangurinn gæti orðið eftir því.
Tíkin:
Innflutningur sæðis er fyrirhafnar- og kostnaðarsamur og þess vegna er einnig mikilvægt að huga að heilbrigði tíkarinnar sem á að verða gæfunnar aðnjótandi. Ráðlagt er að tíkin hafi áður gotið heilbrigðum hvolpum og að allt hafi gengið vel bæði á meðgöngu og í fæðingu.
4. Innflutningsleyfi
Til að flytja inn fryst sæði, þarf að sækja um leyfi til innflutningsins til Matvælastofnunar og er kostnaðurinn samkvæmt gjaldskrá MAST. Sjá www.mast.is
Settar eru kröfur um bólusetningar, m.a. gegn hundæði, komi hundurinn frá landi þar sem hundaæði finnst, en aðrar bólusetningar þurfa einnig að vera í fullu gildi.
Mikilvægt er því að huga snemma að þeim kröfum sem gerðar eru varðandi bólusetningar, blóðsýni o.fl. þar sem tiltekinn tími þarf að líða frá því að bólusett er og þar til leyfi til innflutningsins fæst. Gæta þarf einnig sérstaklega að því að öll eyðublöð séu rétt útfyllt af þar til bærum aðilum, ella er hætta á að sæðið komist ekki inn í landið.
Athugið að ekki er heimilt að flytja ferskt sæði til landsins, en veruleg sjúkdómahætta getur fylgt fersku sæði.
5. Móttaka og geymsla sæðisins
Sá dýralæknir sem tekur sæðið, og frystir, sér um að útbúa það til flutningins og senda til viðtakanda (með hraðflutningum) í til þess gerðum kút. Kúturinn, sem yfirleitt er í eigu þess dýralæknis sem frystir sæðið, hefur verið kældur með fljótandi köfnunarefni sem heldur réttu ,,kulda“stigi á stráunum í marga daga og jafnvel einhverjar vikur.
Eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar taka við kútnum og gæta að því hvort öll meðfylgjandi eyðublöð séu ekki rétt útfyllt og uppfylli kröfurnar.
Að því búnu er kúturinn sendur hingað á stofuna, sæðisstráin sett í viðeigandi geymslu, þ.e. frystikút sem í er fljótandi köfnunarefni og meðfylgjandi upplýsingar um fjölda þeirra og annað skráð.
Innflytjandinn, þ.e. eigandi sæðisins, þarf síðan að endursenda kútinn til eiganda hans innan fárra daga.
6. Tryggingar
Sérhver sæðisskammtur er tryggður hér gegn þjófnaði, vatnstjóni eða innbroti, en ekki gegn skemmdum eða óhöppum af öðrum ástæðum.
Verðmæti erfðaefnisins, þ.e. sæðisins getum við því miður ekki tryggt og er það því alfarið á ábyrgð eigandans að tryggja það eða ekki.
7. Skilmálar
Við móttöku sæðisins gerir Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur og eigandi sæðisins með sér samning þar sem m.a. fram kemur fjöldi stráa í geymslu, ábyrgð geymsluaðilans og skuldbinding eigandans.
8. Sæðingin
Mikilvægt er svo að tíkareigandinn fylgist afar vel með hvenær tíkin byrjar að lóða, því árangurinn veltur á að sæðingin sé framkvæmd á réttum tíma eftir að egglosið hefur verið tímasett. Það er gert með blóðrannsóknum og fer kostnaðurinn því eftir hve mörg sýni þarf að taka.
Allar nánari upplýsingar má fá hér á stofunni á viðtalstímum alla virka milli kl. 09.00 – 11.00
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað