Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Eyrnamerkingar katta

Höfundur: • 16. feb, 2005 • Flokkur: Kettir

Kattaeign í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum er býsna mikil og flestir eru kettirnir hinir prúðir heimiliskettir, sem fara aðeins rétt í kringum heimilið. Þó gerist það stundum, að forvitnin dregur þá heldur lengra en gott er og jafnvel á milli bæjarhluta. Þá getur farið illa, því  kisi verður ráðvilltur og hræddur þegar heimaslóðirnar eru horfnar og vill þá leitað inn hjá vandalausum. Góðhjartaðir kattavinir átta sig þá oftast strax á því, að  kisa hljóti að vera týnd og leggja sig fram um að koma henni heim. Það er ekki alltaf einfalt mál nema því aðeins að kisa sé eyrnamerkt, því oft er ólin eða merkið horfið og þar með bæði nafn eiganda og símanúmer.

Byrjað var að eyrnamerkja ketti hér í Reykjavík árið 1981. Á þessum rúmlega tveimur áratugum hafa fleiri þúsundir katta verið eyrnamerktir og óhætt er að fullyrða, að þessi einfalda, ódýra og auðsæja aðferð hafi komið mörgum kisanum aftur til síns heima eða veitt eigandanum upplýsingar um afdrif hans.

Í dag er það skylda samkvæmt lögum um dýravelferð, að auðkenna skuli öll dýr, þar með talið ketti. Í flestum tilfellum er kisa auðkennd annað hvort með örmerki og/eða eyrnamerki um leið og hún er gerð ófrjó eða örmerkt þegar komið er í fyrstu bólusetningu – og þá eyrnamerkt í ófrjósemisaðgerðinni. Dýralækninum er þá jafnframt skylt að færa skráninguna í gagnagrunninn www.dyraaudkenni.is (Sjá jafnframt greinina um gagnagrunninn Völustall).

Auðkenning kisu er mikið öryggisatriði og þeir eru ófáir kettirnir sem hafa komist aftur til síns heima með hjálp eyrnemerkingar eða örmerkis, jafnvel eftir að hafa verið týndir um árabil!

Allir eiga að geta slegið upp eyrnamerki eða örmerki dýrs í gagnagrunninum og séð hver eigandi kisu er. En það eru aðeins dýralæknar em geta breytt upplýsingum um kisa, þó skráður eigandi getir sett inn myndir sem er auðvitað afar skynsamlegt. Því er mikilvægt verði breyting á eignarhaldi kisu eða heimilisfangi, að koma þeim breytingum til skila í gagnagrunninn.

Hér á stofunni er lögð áherzla á að allir kettir sem undirgangast ófrjósemisaðgerði séu eyrnamerktir um leið, því það sjá allir sem geta lesið gleraugnalaust – og þá er hægur vandi að fletta upp í gagnagrunninum og koma kisu heim. Eyrnamerkingin fylgir með ókeypis í öllum aðgerðum hér á stofunni, en greiða þarf fyrir skráningu í gagnagrunninn. Einungis er greitt eitt skráningargjald þó kisa sé líka örmerkt um leið.

Hvað er eyrnamerki?

Dæmi um eyrnamerki

Dæmi um eyrnamerki

Eyrnamerki er húðflúr sem sett er í eyra kattarins, yfirleitt í hægra eyra. Eyrnamerkið er venjulegast samsett bæði úr tölustöfum og bókstöfum, svo lesa má úr merkinu hvenær (hvaða ár)  kisi er merktur, hjá hvaða dýralækni og svo er raðnúmer í lokin.

Dæmi um eyrnamerki er t.d. 04H084

  • 04 eru tveir síðustu stafirnir í ártalinu þ.e. ársins 2004
  • H er stafur Dýralækningastofu Helgu Finnsdóttur.
  • 084 er hlaupandi raðnúmer, þ.e. kisi er 84 kötturinn sem var merktur á stofunni hér á árinu 2004

Flestir starfandi dýralæknar hafa komið sér saman um að hafa eyrnamerkin sambærileg, þ.e. hvernig þau eru byggð upp og hafa valið sér bókstaf sem sannar hvar kötturinn er eyrnamerktur (sjá lista hér að neðan).

Hvernig eru kettir eyrnamerktir?

Hér er eyrað áður en það er merkt.

Hér er eyrað áður en það er merkt.

Kisi er svæfður fyrir aðgerðina, svo þess vegna eru flestir kettir eyrnamerktir um leið og þeir eru gerðir ófrjóir. Hér er eyrað áður en það er merkt.

Notast er við sérstaka töng, eyrnamerkingartöng, sem þrýstir númerinu í eyrað, og í það er sett (svart) blek og þá verður númerið bæði greinilegt og auðlæsilegt.

Hvernig kemst eyrnamerktur köttur heim aftur?

Merkt með svörtu bleki

Merkt með svörtu bleki

Sá dýralæknir sem merkir köttinn, heldur skrá yfir alla merkta kett, en gagnagrunnurinn Dýraauðkenni heldur einnig utan um alla eyrnamerkta ketti. Í gagnagrunninum kemur fram nafn og heimilisfang eiganda og símanúmer. Því er afar mikilvægt að kattareigandinn  tilkynni breytt heimilisfang eða símanúmer svo hægt sé að hafa upp á honum, finnist köttur sem hefur týnzt.

Hvaða munur er á eyrnamerki og örmerki?

Örmerki

Örmerki

Örmerki er tölvukubbur sem skotið er undir húð með nál, en eyrnamerkið er húðflúr (tattó) í eyra. Tölvukubburinn er forritaður með 16 tölustöfum og eiga engin tveir kubbar að geta borið sömu talnarununa. Örmerkið er örsmátt og algjörlega ósýnilegt þegar það er komið undir húðina, en eyrnamerkið hins vegar bæði vel sýnilegt og auðlæsilegt.

Örmerki komið fyrir

Örmerki komið fyrir

Aðeins er mögulegt að sjá hvort köttur (dýr) er örmerktur eða ekki með því að leita  að merkinu með sérstökum skanna. Þó setja skuli örmerki annað hvort undir húð í vinstri hlið á hálsi eða á milli herðablaðanna (sem er áhættuminna), geta örmerkin í undantekningartilfellum þó sigið til eða færzt úr stað, Því getur þurft að leita að merkjunum í nánd við þann stað sem það á að vera, en stundum er það komið langt frá upprunastaðnum. Eyrnamerkið er alltaf innan í eyra, oftast því hægra, og það hverfur hvorki né dofnar með tímanum. Allir sjá eyrnamerkið, en fara þarf með köttinn  til þess sem á skanna, til að leita að örmerki.

Hvar er kötturinn merktur?

A Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar.
D Dagfinnur dýralæknir á Skólavörðustíg.
E Dýraspítalinn Lögmannshlíð,  Akureyri.
F Dýralækningastofan í Hafnarfirði.
G Dýralæknastofan í Garðabæ.
H Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur, Skipas. 15.
K Dýralæknastofa Suðurnesja.
M Dýralæknastofan í Mosfellsbæ.
R Dýraspítalinn í Víðidal.
S Magnús H. Guðjónsson, dýralæknir.  Keflavík
Y Dýralæknirinn á Ísafirði.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd