Kolur fær sjónina á ný!
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 13. jan, 2012 • Flokkur: HundarÍ byrjun janúar var gerð hér á stofunni flókin aðgerð á augum schnauzerhundsins Kols, en Kolur litli greindist með alvarlega starblindu, eða ský á augasteini, (katarakt) á s.l. ári.
Forsagan er sú, að fyrir um það bil ári ári fannst eiganda Kols sem eitthvað væri athugavert við sjón hundsins og jafnvel líka að augun væru öðruvísi en þau ættu að vera. Hann gerði sér þó ekki strax alveg grein fyrir hvers kyns væri, þar sem hundurinn virtist ,,sjá“ vel heima þar sem hann fór vandræðalaust um allt. Utandyra gegndi öðru máli, en þar virtist Kolur óöruggur, áttaviltur og einfaldlega ekki sjá eða rata. Með haustinu var þó engum vafa um það undirorpið að hundurinn sá verulega illa og að sjóndepran virtist ágerast mjög hratt.Við skoðun lá greiningin fyrir; starblinda.
Hvað er starblinda?
Starblinda er sjúkdómur í augasteini sem veldur ógegnsæi hans. Augasteinninn, sem á að vera tær og gegnsær, verður skýjaður, gruggugur og jafnvel alveg mattur. Ljósið, og þar með það sem horft er á, kemst þá heldur ekki í gegn um hann til sjónunnar. Ástandið getur versnað, jafnvel á fremur skömmum tíma, og veldur í alvarlegustu tilfellunum algjörri blindu.Þegar horft er í augun sést grámi í sjáaldrinu (augasteininum) sem getur með tímanum orðið eins og hvítur köggull.
Arfgeng starblinda er þekkt hjá fjölda hundategunda og því miður lengist sá listi frekar en styttist. Bandarískar rannsóknir sýna að tíðni starblindu í hreinræktuðum hundum þar er 2.42 %, en ekki nema 1.6% í blendingshundum. Ætla má að sambærilegar tölur gildi um hunda í Evrópu.Mörg afbrigði sjúkdómsins eru þekkt, mismunandi staðsetning breytinganna í augasteininum og hvenær breytingarnar koma fram.
Þrátt fyrir miklar rannsóknir, þekkist erfðagangurinn ekki enn og á það við um nær öll hundakyn. Sé starblindan ekki afleiðing slyss eða sjúkdóma, eins og t.d. sykursýki, má telja meiri líkur á að hún sé arfgeng, t.d. ef:
- Sjúkdómurinn er þekktur í tegundinni,
- breytingarnar eru í báðum augum, þó þær geti verið mismiklar,
- byrjunareinkenni, og staðsetning í augasteininum, er á þeim stað sem er einkennandi fyrir viðkomandi tegund og aldur og
- þróist breytingarnar til verri vegar.
Augasteinninn
Augasteinninn er staðsettur fyrir aftan lithimnuna, (þ.e. brúna/bláa hluta augans) og er hluti af sjáaldrinu í miðju augans. Hann er mjúkur og breytir auðveldlega um lögun, en hlutverk hans er að fókusera ljósgeislana sem berast inn í augað svo þeir myndi skarpa mynd á sjónhimnunni. Þaðan berst myndin með sjóntauginni til heilans og hundurinn sér það sem hann horfir á, skýrt og greinilega. Augasteinninn getur einnig, með hjálp sjónstillingarvöðvans, breytt um lögun og þannig fínstillt myndina með tilliti til mismunandi fjarlægðar.
Augasteinninn er að mestu gerður úr vatni og próteinum (65% vatn og 35% prótín) og á sem sagt að vera kristaltær. Í honum eru engar æðar, heldur fær hann næringuna úr augnvökvanum sem rétt dugir til þess að viðhalda heilbrigði hans. Minnstu breytingar, meðfæddar eða arfgengar, áverkar eða efnaskiptasjúkdómar, geta því verið mjög afdrifaríkar fyrir ástand augasteinsins. Með aldrinum er algegnt að flutningur næringarefna til augasteinsins versni sem veldur öldrunartengdum ótærleika – og þar með óskýrari sjón og jafnvel blindu!
Meðferð
Eina lækningin, jafnt hjá hundum sem fólki, er sú að fjarlægja augasteininn með aðgerð. Aðgerðin, sem er smásjáraðgerð, var áður erfið þar sem skera þurfti stóran skurð inn að augasteininum til að geta fjarlægt hann. En með tilkomu nýrrar tækni, svokallaðrar ómþeytingar (Phakoemulsifikation), einfölduðust aðgerðirnar til mikilla muna. Augasteinninn er mulinn niður með hljóðbylgjum inni í auganu og mulningurinn sogaður jafnóðum út í gegn um lítið gat á hornhimnunni með sama tæki. Hjá hundum er ekki nauðsynlegt að koma fyrir nýjum augasteini, þar sem þeir geta ágætlega verið án hans.
Áður en ákvörðun um aðgerð er tekin, er nauðsynlegt að ganga úr skugga um að ekki séu aðrir undirliggjandi sjúkdómar til staðar, eins og t.d. arfgeng, vaxandi sjónurýrnun (PRA). Það er gert með því að skoða sjónuna og líka, sé þess kostur, senda blóðsýni til DNA rannsóknar.
Þar sem aðgerðin er bæði kostnaðarsöm, flókin og eftirmeðferðin löng eða allt að 3 mánuðir, með talsverðum lyfjakostnaði, þurfa bæði hundur og eigandi að vera ,,samvinnuþýðir“ og fara nákvæmlega í einu og öllu eftir tilmælum dýralæknisins varðandi meðferð og lyfjagjöf!
Og Kolur fór í aðgerð!
Eigandi Kols ákvað að leita honum lækninga, enda Kolur fílhraustur að öðru leyti og ekki nema 4 ára. Fyrsta skrefið var að Kolur fór í augnskoðun s.l. haust hjá Finn Boserup dýralækni og sérfræðingi í augnsjúkdómum hunda og katta, sem sagði hann hæfan í aðgerð. Í framhaldinu var blóðsýni sent til Optigen í Bandaríkjunum til að útiloka arfgenga, vaxandi sjónurýrnun (PRA) og þegar niðurstaðan lá fyrir, var ekkert því til fyrirstöðu að Kolur færi í aðgerð.
Dagsetningin var ákveðin og kom Finn Boserup gagngert til landsins í þessum tilgangi, ásamt sérhæfðum dýrahjúkrunarfræðingi, auk flókinna tækja og tóla.
Aðgerðin lukkaðist vonum framar. Að kvöldi dags virtist eigandanum sem Kolur sæi strax betur og skima eftir ljósi. Miklar líkur eru á því að Kolur fái allt að fulla sjón komi ekkert bakslag, þó reyndar verði hann fjarsýnni og muni sjá mjög nálæga hluti verr en heilbrigður hundur.
Endanlegur bati er þó ekki í höfn fyrr en eftir nokkra mánuði að lokinni mikilli lyfjagjöf til að koma í veg fyrir fylgikvilla.
17 dögum seinna
Kolur mætti í eftirskoðun 17 dögum eftir aðgerð. Ekki er neinn vafi á því að hundurinn sér vel og fylgdi hann hreyfingum eigandans vel eftir. Eigandinn segir Kol afskaplega glaðan og fylgja hinum heimilishundunum eftir í leik. Það gerði hann ekki áður. Svo allar líkur eru á því að aðgerðin hafi gengið eins og bezt var á kosið!
Sumar 2012
Í dag er er liðið meira en hálft ár síðan aðgerðin var gerð. Kolur er glaður og fjallsprækur, finnur leikföngin sín sem hann færir eigandanum til að lokka hann í leik og gefur hinum heimilishundunum ekkert eftir í gönguferðum. Í þessu tilviki er óhætt að segja að allt er gott sem endar vel!
Heimildir:
Veterinær Oftalmologi. Ellen Bjerkas
Slatters Fundamental Veterinary Ophtalmology
Veraldarvefurinn
Slatters Fundamental Veterinary Ophtalmology
Veraldarvefurinn
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað