Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Kynþroski hundsins, ófrjósemisaðgerð – eða ekki?

Höfundur: • 8. mar, 2022 • Flokkur: Almennt

Hundar (rakkar) verða kynþroska á aldrinum 8 – 10 mánaða og við upphaf kynþroskans stækka eistun og framleiðsla karlhormóna, andrógena, hefst. Aðalkarlhormónið er testósterón og stýrir það kynhvötinni, framleiðslu sáðfrumanna og  kynbundnu atferli, en hefur auk þess vefaukandi verkun sem stuðlar að auknum vöðvamassa og útliti hundsins sem karldýrs. Þó að framleiðsla þess fari nánast eingöngu fram í eistunum, myndast testósterón einnig í örlitlu magni í nýrnahettunum – og reyndar líka smávegis í eggjastokkum hjá tíkum!

Hundar geta verið frjóir frá 6 mánaða aldri, en eru almennt seinna kynþroska en tíkur af sömu tegund/stærð. Sömuleiðis verða hundar af smáhundakyni heldur fyrr kynþroska en stærri hundar.

Fyrstu einkenni kynþroskans eru að hundurinn fer að lyfta löpp, sýna tíkum áhuga og vöðvamassi þeirra eykst.

Æxlunarfæri hundsins

 

samanstanda af getnaðarlim, eistum, eistalyppum, blöðruhálskirtli, sáðrás og forhúð.

 

 

 

 

1. Getnaðarlimur og forhúð

Forhúðin hylur getnaðarliminn alveg og það er ekki óeðlilegt að sjá smávægilega útferð sem venjulegast sést varla. Sé  hins vegar um forhúðarbólgu að ræða, eykst úferðin verulega og getur jafnvel valdið óþægindum.

2. Eistun 

Hjá kynþroska hundi eiga eistun að vera jafnstór og á bilinu 2-4 cm á lengd og 1.2-2.5 cm á breidd. Breyting á stærð og lögun eista, hnútar, viðloðun/bandvefstenging við húðina eða sársauki við snertingu, getur verið merki um bólgur, sýkingu eða æxli.

Eistalyppan, en í hana safnast sæðið, hangir við eistað og finnst greinilega sem smáhnútur aftan á því.

Eistun ganga venjulega niður í punginn nokkrum dögum eftir fæðingu og finnast auðveldlega þegar hvolpurinn er 6-8 vikna. Þó getur það komið fyrir fram til 10 vikna aldurs, sérstaklega sé hvolpurinn æstur eða taugaóstyrkur, að eistun dragast upp í náragöngin og hverfa um stundarsakir, en rata svo aftur á réttan stað þegar ró færist yfir hann á ný. Finnist ekki eista þegar hvolpurinn hefur náð 8 mánaða aldri, er ólíklegra að það gangi niður úr því. Eistað er þá annað hvort í náragöngum eða kviðarholi og er þá talað um launeista.

Talið er að launeistu finnist hjá um 2% hunda og þar sem hitastigið í umhverfi þess eista sem er á vitlausum stað er hærra en í pungnum, hefur það áhrif á framleiðslu sáðfrumanna með þeim afleiðingum að það er ófrjótt. Hins vegar heldur framleiðsla kynhormónanna áfram.

 

Krabbamein í eistum finnst aðallega hjá eldri og gömlum hundum og er þá oftast góðkynja. Einkenni krabbameins í eista er að það stækkar og greinilegur munur verður á stærð eistnanna. Sem betur fer dreifa góðkynja æxli (Sertolicelle-tumor) sér sjaldnast og lækningin felst í að fjarlægja veika eistað með skurðaðgerð og batahorfurnar eru almennt mjög góðar.

Illkynja æxli  eru innan við 1% af þeim æxlum sem finnast í eistum og algengari í launeistum en í eistum sem eru rétt staðsett. Launeistu í kviðarholi er rétt að fjarlægja þar sem ekki sést breyti þau um lögun, sem er hins vegar auðsjánlegt hjá launeistum í náragöngunum.

Mikilvægt er að benda á, að það er alls engin ástæða, eða fagleg rök, að fjarlægja heilbrigða eistað í forvarnarskyni! 

Gott er að hafa í huga, að á snögghærðum hundum er þunn húðin á pungnum óvarin gegn sólinni og getur því auðveldlega sólbrunnið.

Blöðruhálskirtillinn

er kynkirtill sem liggur í grindarholinu og umlykur þvagblöðruhálsinn og aftasta hluta þvag- og  sáðrásarinnar. Hann framleiðir  kirtilvökva sem blandast sæðinu og er starfsemin bundin framleiðslu testósteróns. Breytingar eins og stækkun, eða truflun á starfsemi kirtilsins, getur stafað af bólgum, sýkingu eða krabbameini. Fyrstu einkenni geta verið blóð í þvagi, almenn vanlíðan eða erfiðleikar við að hafa hægðir því stækkaður blöðruhálskirtill getur þrýst á ristilinn.

 

Kynbundið atferli og/eða lært! 

Bæði hundar og tíkur hafa meðfædd, kynbundin viðbrögð. Strax í frumbernsku eru greinileg skil á atferli og hegðun hund- og tíkarhvolpa og til dæmis má nefna, að leikur hunda einkennist mun meira af riðli en leikur tíkarhvolpa. Það stafar af skammvinnri aukningu testósteróns í kringum fæðingu sem hefur áhrif á ýmis líffæri hans og mótun sem karldýrs fram að kynþroskaaldri.

Kynbundna atferlið verður auðvitað enn greinilegra við kynþroskann og framleiðslu karlkynshormónanna og einkennist það gjarnan af merkingu yfirráðasvæða, áhuga á hinu kyninu, löngun til að fara á flakk og hugsanlega meiri líkum á ,,ósamkomulagi“ við aðra hunda.

Þó kynhormónar eigi sinn þátt í að stýra kynbundnu atferli bæði hvolpa og sérstaklega fullorðinna hunda, mótast þeir ekki síður af uppeldi, umhverfi og atlæti. Sé þeim þáttum ábótavant, getur það haft bæði veruleg og íþyngjandi áhrif á líf og umhverfi hundsins síðar meir, því minnst  af atferli hundsins er kynbundið. Flestar daglegar gjörðir hans, og hegðan, eru meðfæddir, eiginlegir, lærðir og/eða áunnir eiginleikar og gelding er því sjaldnast lausn á vandamálum sem tengjast atferli.

Rétt uppeldi og þjálfun hvolpsins ásamt jákvæðri og markvissri mótun hans frá frumbernsku og fram að kynþroskaaldri, samfara þekkingu á eðli og atferli hundsins er forsenda farsællar framtíðar hans, því lengi býr að fyrstu gerð.

Gelding

Við geldingu eru kynkirtlar hundsins, eistun, fjarlægðir og með þeim hverfur  framleiðsla kynhormónanna (testósterónsins). Hundurinn verður ófrjór og samfara því lætur hann af kynbundnu atferli, en meðfæddir eiginleikar eins og veiði- og vakteðli breytist hins vegar ekki, enda ekki kynbundnir.

En eins og kemur fram hér á undan, er minnst af atferli hundsins kynbundið þar sem flestar daglegar gjörðir hans og hegðan, eru ýmist meðfæddar, eiginlegar (tegundabundnar), lærðar og/eða áunnar. Þess vegna er afar mikilvægt að undirstrika, séu vandamál til staðar sem eigandinn vonar að hverfi með geldingu, er alls óvíst að það gerist sé rótin að vandanum ekki hormónatengd.

Óöruggur eða hræddur hundur sem t.d. hefur tilhneigingu  til að ógna eða bíta  lætur mjög ósennilega af þeirri hegðan við vönun, enda atferli sem sennilegast á sér aðrar ástæður eða orsök og gæti það jafnvel frekar versnað við aðgerðina. Í slíkum tilfellum er afar hæpið, og jafnvel áhættusamt, að láta gelda hundinn.

Hins vegar kann gelding hunds vissulega vera réttlætanleg í einhverjum tilfellum eins og til að koma í veg fyrir að sjúkdómar, meðfæddir eða arfgengir, erfist eða af læknisfræðilegum ástæðum vegna sjúkdóma í kynfærum. Smáhundar, sérstaklega, geta haft tilhneigingu til að merkja sér yfirráðasvæði svo sem heimilið og þar sem það er kynbundið atferli, er líklegra en hitt að sá ósiður lagist við aðgerð.

Íhugi eigandi geldingu hundsins síns, er mjög mikilvægt að kynna sé kosti og galla aðgerðarinnar vandlega. Skynsamlegt er að leita ráða hjá dýralækninum um afleiðingar aðgerðarinnar á hundinn sem auðveldar það að geta tekið upplýsta ákvörðun.

Einnig er rétt að velta því fyrir sér, hvort réttlætanlegt sé að leggja ónauðsynlega, og óafturkræfa, aðgerð á hundinn sinn sé hennar ekki þörf, sérstaklega verði ávinningurinn jafnvel ekki sá sem búist var við og vonað.

Kostir – og ókostir við geldingu (Tekið saman af Danska dýralæknafélaginu)

1. Kostir

Erfðir:

  • Ófrjór – engin eða ekki fleiri afkvæmi,
  • arfgengir sjúkdómar erfast ekki.

Atferli:

  • Kyndeyfð,
  • enginn áhugi á lóða tíkum og
  • merkir sér síður yfirráðasvæði.

Lítil eða engin hætta á:

  • Stækkun á blöðruhálskirtli,
  • æxli í eistum,
  • sýkingu í eistum,
  • krabbameini við endaþarm,
  • sýkingu í blöðruhálskirtli eða
  • slit (haull) í grindarbotni.

Rannsóknir hafa sýnt að í í 90% tilfella hættir hundur flakki sé hann vanaður, enda er kynhvötin horfin. Hins vegar mun aðeins helmingur geldra hunda hætta merkingu yfirráðasvæðis eða riðli.

 2. Ókostir

Aukin hætta er á:

  • Þyngdaraukningu,
  • verulegum breytingum á feldi og auknu háralosi,
  • krabbameini (sjá hér að neðan),
  • aukinni hættu á slitnum krossböndum í hné,
  • seinkun á að vaxtalínur lokist.

Hugsanlegar breytingar á atferli, sérstaklega sé hundurinn geldur fyrir kynþroskaaldur:

  • Aukin hætta á ótta eða kvíða,
  • árásargirni og
  • minni námsfærni t.d. í þjálfun.

Tegundabundin áhætta á illkynja meinum:

  • Beinkrabbi hjá stórum hundategundum.

Gelding fyrir kynþroska:

  • Krabbamein í blöðru (ýmsar terríertegundir),
  • eitlakrabbamein (dobermann, rottweiler, boxer og berner sennen),
  • húðkrabbamein (golden retriever, labrador retriever, boxer og boston terríer).

Auk ofantalins er vert að benda á, að þó hundur sé vanaður er hann enn í áhættuhópi með að fá krabbamein í blöðruhálskirtil. Enn er ekki vitað hvort það séu meiri líkur hjá einhverjum tegundum frekar en öðrum.

Það er skynsamlegt, og ætti að vera sjálfsagður hluti af daglegri umhirðu hundsins, að skoða ytri kynfæri hans reglulega. Sé það gert uppgövast  óeðlilegar breytingar fyrr og þá er um að gera að hafa strax samband við dýralækninn.

Lyfjagelding

Langi eiganda hunds til að láta gelda hann, en er í vafa um hvort gelding muni vera til gagns eða ekki, er til svokölluð lyfjagelding. Eins og nafnið segir, er hormónalyfi sem bælir framleiðslu kynhormónakveikju hundsins í heiladinglinum komið fyrir undir húðinni. Lyfið, sem er forðalyf, dregur þ.a.l. úr framleiðslu testósterónsins, kynhvötinni og kynbundnu atferli hundsins. Það virkar í 6 eða 12 mánuði eftir styrkleikanum og um 3 vikum eftir inngjöfina fer áhrifanna að gæta, eistun hafa minnkað umtalsvert og hverfa síðan nánast alveg. Þegar lyfið er horfið úr líkamanum, stækka eistun í eðlilega stærð og hundurinn nær fullri frjósemi á ný. Hafi lyfjageldingin ekki tilætluð áhrif, hefur varanleg gelding framkvæmd með skurðaðgerð það heldur ekki.

 

 

Helztu heimildir

Textbook of Veterinary Internal Medicine. Ettinger/Feldman. Saunders 1995
Canine and Feline Behavorial Therapy.Benjamin L. Hart, D.V.M., Ph.D. and  Lynette A. Hart, Ph.D. Lea & Febiger. Philadelpia 1985.
Long-Term Health Risks and Benefits Associated with Spay/Neuter in Dogs, Laura J. Sanborn. 2007
Den Danske Dyrlægeforening
Veraldarvefurinn

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Comments are closed.