Vefjasullur finnst í sláturlambi!
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 29. okt, 2014 • Flokkur: AlmenntÁ vef Matvælastofnunar kemur fram, að við haustslátrun í haust hafi fundizt vöðvasullur í sláturlambi. Bandormurinn Taenia ovis sem myndar vöðvasullinn er ,,nýbúi“ meðal bandorma hér á landi,,greindist fyrst árið 1983 og fannst eftir það í nokkrum mæli í sauðfé á níunda áratugnum, en frá þeim tíma hafa aðeins fundizt nokkur tilfelli hans. Mikilvægt er, að ekki sé ruglað saman bandorminum Taenia ovis sem myndar vöðvasulli í sauðfé, en er algjörlega skaðlaus fólki, við sullaveikibandorminn Eccinococcus granulosus eða sullafársbandorminn Eccinococcus multilocularis þar sem sá síðastnefndi er stórhættulegur heilsu manna og dregur tugi manna til dauða bAra í Evrópu.
Magnús Einarson dýralæknir nefnir í Dýralækningabók sinni (1931), ,, að í görnum hundsins lifi margar tegundir bandorma sem bæði mönnum og dýrum geti stafað hætta af“. Sá hættulegasti þeirra var þá sullaveikibandormurinn, eða ígulbandormurinn, sem flestir Íslendingar hafa örugglega heyrt um sem og þær hremmingar sem hann olli landsmönnum, áður en það uppgötvaðist hvernig hann barst í fólk og stjórnvöld hófu markvissar aðgerðir til útrýmingar sullaveikinni.
Sullaveiki mun hafa verið þekkt á Íslandi allt frá landnámi, en varð að faraldri eftir að innflutningur hófst á hundum frá Þýzkalandi um 1200. Talið er að mest hafi mátt um kenna sóðaskap Íslendinga, að sullaveiki af völdum sullaveikibandormsins var landlægt heilbrigðisvandamál fram undir lok 19. aldarinnar og vissulega olli hann einnig miklum búsifjum.
Lífsferill ígulsullsins er ekki flókinn, en hann þarfnast hundsins (eða annarra dýra af hundaætt s.s. refsins) til að verða kynþroska, þ.e. mynda egg. Eggin, bandormaliðirnir, eru smitefnið og skiljast út með saur. Berist þau í fólk, eða sauðfé m.a. með sýktum eða menguðum matvælum eða snertingu við smituð dýr, þroskast þau í lirfur sem berast um líkamann, setjast að í líffærum og mynda vökvafyllta sulli, ígulsulli. Einkennin fara eftir því hvar lirfan tekur sér bólfestu í líkama mannsins en sullurinn, sem getur orðið risastór, getur bæði verið erfitt og flókið að lækna, krafizt langvarandi og kostnaðarsamrar lyfjameðferðar eða flókinna skurðaðgerða.
Danski læknirinn, Harald Krabbe, ferðaðist um Ísland árið 1863 og safnaði 100 hundum sem hann krufði í leit að sullaveikibandormum og fann hann orminn í 28 þeirra. Markvissar aðgerðir stjórnvalda í baráttunni gegn sullaveiki virtust þó hafa borið árangur, því á árunum 1950 – 1960 krufði Páll A. Pálsson, yfirdýralæknir 200 hunda og reyndist enginn þeirra sýktur með ígulbandormi.
Hér á landi voru um áratugaskeið afar ströng lög um varnir gegn sullaveiki og skyldu hundar bandormahreinsaðir að hausti að lokinni aðalsláturtíð. Sú aðgerð var ekki alltaf skemmtileg framan af fyrir hundinn, því þeir voru færðir í þar til gerðan hundahreinsiskúr eða kofa þar sem sérstaklega skipaður hundaeftirlitsmaður gaf hundinum lyf sem virkaði svo niðurlosandi, að hundurinn fékk rennandi niðurgang. Áttu bandormarnir þá að ganga niður af honum, ef einhverjir voru, og til að fjarlægja þá orma sem gætu setið í feldinum var hundurinn svo baðaður upp úr ískaldri lýsólsápu! Í dag myndu sennilega fæstir hundeigendur samþykkja slíka meðferð á hundnum sínum.
Í dag hafa lög um varnir gegn sullaveiki verið felld úr gildi, en gildandi er reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og í 57. gr. hennar kemur eftirfarandi fram: ,,Fyrirbyggja skal sýkingar hjá mönnum af völdum bandorma og spóluorma í hundum og að til hreinsunar hunda gegn bandormum og spóluormum skuli nota ormalyf sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt til þeirra nota“.
Telja má nokkuð víst að ígulbandormi hafi verið útrýmt á Íslandi og efalaust má þakka það aðgerðum stjórnvalda, auk breyttra þjóðfélagshátta og betri lyfja, en enn er hann algengur í öllum heimsálfum nema Suðurskautslandinu og er talið að meira en ein milljón manns sé smituð af sulli á hverjum tíma (WHO).
Bandormurinn Taenia ovis lifir í hundum og refum sem eru endahýslar ormsins og mynda þ.a.l. smitefnið þ.e. eggin sem ganga út með saurnum. Þessi tegund bandorms aðskilur sig hins vegar frá sullaveikibandorminum að hann smitar ekki fólk heldur fé. Vandamálið við hann er fyrst og fremst það að hann, auk þess væntanlega að valda dýrinu óþægindum, myndar sulli í vefjunum sem skemma kjötið með umtalsverðu afurðatapi og tjóni fyrir bændur.
Þó sullaveikibandorminum hafi verið útrýmt hér á landi, eru fleiri vágestir á ferð sem geta valdið miklum skaða sé ekki vel að gætt.
Sullafársbandormurinn (E. multilocularis)
finnst ekki á Íslandi og hefur til skamms tíma heldur ekki fundizt á Norðurlöndum, en finnst nú í Danmörku og er nýgreindur í Svíþjóð. Hann er hins vegar algengur í mið- og austanverðri Evrópu.
Endahýslar sullafársbandormsins eru villt dýr en endahýslar eru aðallega refir og þá sérstaklega rauðrefurinn, en einnig hundar, og dreifist smitefnið á sama hátt og hjá öðrum bandormum;
þ.e. med saur og hárum endahýslanna. Eggin sem þá liggja á víð og dreif í náttúrunni geta þess vegna borizt í fólk borði það menguð ber eða sveppi. Sýkist fólk (Alveolar echinococcosis) geta afleiðingarnar orðið mjög alvarlegar og er dánartíðni hjá þeim sem veikjast af völdum sullafársbandormsins há.
Sú hætta er vissulega fyrir hendi, að þessi bandormur geti borist til Íslands með innfluttum hundum sem hafa ekki fengið viðhlítandi ormalyfjagjöf og jafnvel með menguðum matvælum.
Finnist sullur í lambi er það staðreynd að hundar og/eða refir á því svæði þar sem sýkt sauðfé finnst, eru smitaðir með lifandi bandormum sem menga umhverfið og sýkja sauðféð.
Þó ígulsulli, þeim bandormi sem sýkti fjórðung Íslendinga áður, hafi verið útrýmt hér á landi, er hann algengur víða um heim og t.d. í sunnanverðri Evrópu og því alltaf hætta á að hann geti, eins og önnur hættuleg sníkjudýr, borizt til landsins. Fundur vefjasullsins sýnir og sannar mikilvægi þess, að hundeigendur gæti þess að hundarnir þeirra séu meðhöndlaðir reglulega með viðeigandi ormalyfjum til að hindra frekari útbreiðslu þeirra innvortis sníkjudýra sem hér eru landlæg.
Við megum svo sannarlega þakka það bæði legu Íslands og einangrun að vera laus við jafn alvarlega vágesti og sullafársbandormurinn er. Það er ekki sízt því að þakka, að allir hundar og kettir verða að fara í einangrun við komuna til landsins, sama frá hvaða landi þeir koma og eru þar meðhöndlaðir faglega gegn sníkjudýrum sem geta valdið alvarlegum sjúkdómum.
Heimildir:
Dýralækningabók Magnúsar Einarson 1931
Sullaveiki á 16. öld. Steinunn Kristjánsdóttir, veraldarvefurinn
Karl Skírnissonar, Sigurðar Richter og Matthíasar Eydal hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum, veraldarvefurinn
Matvælastofnun. Bandormahreinsun hunda
Myndir: Veraldarvefurinn
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað