Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Sæðisbanki – og hvers vegna fryst sæði?

Höfundur: • 4. maí, 2008 • Flokkur: Almennt, Hundar

Á Dýralækningastofu Helgu Finnsdóttur í Skipasundi er rekinn sæðisbanki þar sem boðið er upp á geymslu á frystu hundasæði til lengri eða skemmri tíma sem og sæðingu með frystu sæði.

Geymsla á erfðaefni

Ekki þarf mörg strá í hvert skipti sem sætt er

Ekki þarf mörg strá í hvert skipti sem sætt er

Með frystingu sæðis er unnt að geyma erfðaefni hunds um árabil og nýta eiginleika hans og kosti í ræktunarskyni þó hann sé ekki á staðnum – og jafnvel dauður!

Litlir hundastofnarnir, eins og hér á landi, setja ræktuninni ákveðnar skorður. Með frystu sæði er hins vegar mögulegt að fá til landsins erfðaefni beztu hunda sem völ er á hverju sinni; hunda sem eru heilbrigðir, hafa sýnt og sannað ræktunargildi sitt en eru sjaldnast sjálfir falir.

Góður valkostur

Innflutningur á (frosnu) sæði er afar góður valkostur ræktunarlega séð. Þó honum fylgi nokkur kostnaður er hann mun lægri en kostnaðurinn við innflutning á ,,lifandi“ hundi, því ofan á kaupverðið bætist kostnaður vegna einangrunardvalarinnar.

Sé hundurinn keyptur sem undaneldisdýr, getur verið erfitt að sjá fyrir ræktunargildi hans hafi hann ekki þegar sannað sig á því sviði fyrir innflutninginn. Því miður hafa verið dæmi þess, þegar á hólminn var komið, að innflutti  hundurinn hafi ekki nýtzt sem skyldi.

Fyrstu tilraunir með frystingu á hundasæði áttu sér stað á 6. áratug síðustu aldar. En það var ekki fyrr en árið 1969 sem fyrstu hvolparnir, sem getnir voru með frystu sæði, litu dagsins ljós í Bandaríkjunum.

Geymsla

Frosið sæði í er geymt í 196° C frosti

Frosið sæði í er geymt í 196°C frosti

Sæðið er geymt í fljótandi köfnunarefni í þar til gerðum kút við – 196°C.  Ekki er vitað hve lengi er unnt að geyma frosið sæðið, svo það sé enn nothæft, en talið að það geti geymst um árabil og jafnvel áratugi!

Strá eða pillur?

Mismunandi aðferðir eru til við frystingu sæðis og er algengast að það sé fryst í svokölluðum stráum sem eru örmjó rör og er hvert strá merkt með skráningarnúmeri hundsins, tegund og dagsetningu frystingarinnar og inniheldur hvert strá 0.5 ml sæðis með um 75 – 100 milljónir sáðfruma.

Hvert strá er merkt með nákvæmum upplýsingum

Hvert strá er merkt með nákvæmum upplýsingum

Önnur aðferð við frystingu sæðis er að frysta það í í litlum pillum (nánast eins og ópal), en þær eru mun fyrirferðarmeiri en stráin í geymslu, vandasamari í uppþíðingu og svo er ekki hægt að merkja hverja „pillu“ sérstaklega (gætu ruglast…).

Einungis dýralæknum með starfsleyfi á Íslandi er heimilt að sæða tíkur með innfluttu sæði. Tíkur sem sæddar hafa verið með innfluttu sæði er óheimilt að para á sama gangmáli.

Allar nánari upplýsingar má fá hér á stofunni, en símatími er alla virka daga milli kl. 09 – 11.00

 

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd