Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Mjaðmalos

Höfundur: • 22. nóv, 2004 • Flokkur: Hundar
Mjaðmalos

Mjaðmalos

Mjaðmalos (Hip Dysplasia) er flókin samflétta sjúkdómseinkenna í mjaðmalið. sem hrörnar með þeim afleiðingum, að los myndast milli augnkarlsins (acetabulum) og lærleggshöfuðsins (femoral head). Lærleggskúlan gengur til og frá við hreyfingu og með auknu álagi eyðist liðurinn meira og meira. Með tímanum myndast beingaddar umhverfis liðinn sem valda miklum sársauka við sérhverja hreyfingu. Stundum er hrörnunin   aðeins smávægileg og án einkenna, en stundum  er hún mjög mikil.  Í verstu tilfellunum er augnkarlinn nánast horfinn, svo lærleggshöfuðið er „laust“. frá mjaðmagrindinni og  hundurinn örkumlaður. (Sjá röntgenmynd hér aftar í greininni, „E mjaðmir“).

Vitað er að sjúkdómurinn stjórnast af mörgum genum og ólíkum umhverfisþáttum og þrátt fyrir áratugalangar rannsóknir, hefur ekki enn tekist að finna neina eina ástæðu hans. Þó er vitað, að hann er samspil bæði erfða (gena/efnaskiptasjúkdóma) og umhverfisþátta. Þar má nefna hundategund (stærð), vöðvamassa og vaxtahraða, fóðrun, þjálfun (hreyfingu), hormónajafnvægi og aðra lið- eða  beinasjúkdóma, t.d. í hrygg eða framfótum.

Reyndar er mjaðmalos ekki bara sjúkdómur tengdur hundum, því hann er vel þekktur bæði hjá manninum og öllum spendýrum í þjónustu hans. Talið er, að rúmlega eitt barn af hverjum 1000 hafi einkenni mjaðmaloss. Mesta er hættan á mjaðmalosi  í stærstu og mest hraðvaxta hundategundunum, þó það sé þekkt í nánast öllum hundategundum og hjá þeim getur tíðnin einnig verið mjög há.

Á töflunni hér að neðan má sjá  tíðni mjaðmaloss í mörgum hundategundum.

Tíðni mjaðmaloss í ýmsum hundategundum

Tíðni mjaðmaloss í ýmsum hundategundum

Einkenni mjaðmaloss

er misjafnt eftir hve alvarlegt það er. Hundurinn getur verið nánast einkennalaus alla ævi, en sjúkdómurinn getur einnig valdið honum miklum sársauka og örkumlun.

Við fæðingu eru mjaðmaliðirnir heilbrigðir, (nema um sé að ræða meðfædda galla aðra en mjaðmalos) og halda áfram að vera það, sé tilhneigingin til mjaðmaloss ekki til staðar.

En hafi hvolpurinn tilhneigingu til að fá mjaðmalos, byrja fyrstu breytingarnar strax og hann spyrnir í afturfæturna, til dæmis í slagnum um að komast á bezta spenann. Og hjá öflugustu hvolpunum sem eyða miklum tíma á spena og þyngjast mest, eykst álagið á mjaðmaliðina.

Röntgenmynd af heilbrigðum mjöðmum

Röntgenmynd af heilbrigðum mjöðmum

Fyrstu einkenni mjaðmaloss koma oftast fram hjá hundum á aldrinum 5-12 mánaða, en mun sjaldnar eftir 3 ára aldur. Ungur hvolpur með alvarlegt mjaðmalos á háu stigi hreyfir sig öðruvísi en heilbrigður hundur á sama aldri, svo það er ekki endilega víst, að ræktandinn eða nýi eigandinn veiti því sérstaka athygli að eitthvað sé að. Einkennin verða augljósari þegar hundurinn stækkar eins og t.d. helti eða stirðleiki þegar hann stendur upp.Hundurinn hlífir sér í leik, gönguferðum eða þjálfun og sezt niður um leið og tækifæri gefst til og virðist jafnvel vansæll.

Auðvitað er það mikið áfall þegar ungur hundur greinist með alvarlegt mjaðmalos og við dýralæknar erum oft spurðir að því hvernig á því geti staðið, þegar foreldrarnir eru heilbrigðir. Eins og fyrr segir stjórnast arfgengi mjaðmaloss af mörgum genum auk umhverfisþátta. Þó hundur eigi heilbrigða foreldra og forfeður, jafnvel marga liði aftur í ættir er það því miður engin trygging þess að hann fái  ekki mjaðmalos.

Mikið átak hefur verið gert til að minnka tíðni mjaðmaloss með margvíslegum aðferðum. Fyrst og fremst er áherzla lögð á heilbrigð undaneldisdýr, en einnig hafa verið gerðar margvíslegar tilraunir  með mismunandi fóður og steinefni.

Á vaxtatímabili hvolpa, eiga margvíslegar frumur þátt í uppbyggingu beinanna og hafa ólík næringarefni í fóðrinu áhrif á þessa ,,byggingarvinnu“ og þar með á vöxt og þroska mjaðmaliðanna. Rétt fóðrun með góðu fóðri getur því haft bætandi áhrif á heilbrigði hundsins og á sama hátt getur offóðrun, eða  lélegt fóður,  haft óheppileg  áhrif á heill og hamingju hans. Fóður getur jafnvel ráðið því hversu alvarleg einkenni mjaðmalossins verða, sé tilhneigingin  til l staðar.

Nefna má að:

  • Hátt kalkinnihald (Ca) í fóðri dregur úr hormónaframleiðslu kalkirtlanna.  með .þeim slæmu afleiðingum, að frumunum sem taka þátt í beinmynduninni (osteoclastar) fækkar. Það getur einnig  seinkað beinþroskanum sem getur leitt til afmyndunar liðarins.
  • Offóðrun leiðir til þyngdaraukningar sem eykur álagið á mjaðmaliðina og þar með auknum líkum á einkennum mjaðmaloss hjá þeim einstaklingum sem eru í áhættuhópi.  Þó hundurinn éti mikið af prótínum, kolvetnum og fitu, virðist það ekki hafa óheppileg áhrif á beinaþroska, svo fremi sem hann  þyngist ekki.
  • Sýnt hefur verið fram á, að sé condroitin súlfati í bland við glucatamín-HCI (í fóðri eða gefið sem stungulyf í vöðva), bæti líðan þeirra hunda sem eru með slitgigt og jafnvel áfram éftir að hætt er að gefa það.
  • Sé feitur hundur með slitgigt settur í góða megrun og jafnframt haldið í algjörri hvíld í þrjá mánuði, bætir það líðan hans til muna og liðbrjóskið nær að endurnýja sig á þeim tíma.

Við almenna skoðun er ekki hægt að staðfesta að um mjaðmalos sé að ræða, þó allt bendi til þess. Eymsli við þrýsting á mjaðmaliðinn eða tog og snúningur fótarins, rýrir lærisvöðvar, óstöðugt göngulag þar sem hundurinn flytur þyngdina á framfætur til að létta álagið á afturhlutann, staðfesta þó oft gruninn. Endanleg staðfesting fæst svo með röntgenmyndatöku af mjöðmunum.

Gamlir hundar fá slitgigt í mjaðmaliði sem er afleiðing mjaðmaloss sem hefur verið einkennalaust fram til þess tíma sem gigtin gerir vart við sig.

Röntgenmyndatakan

Mjaðmalos er staðfest með röntgenmyndatöku af mjöðmunum.Niðurstaðan  byggist á gæðum myndarinnar, þ.e. réttri legu hundsins, stefnu röntgengeislans á mjaðmaliðina og góðri framköllun. Sé eitthvað af þessu ekki í lagi, getur það haft áhrif á  aflesturinn og þar með niðurstöðuna.

Til að myndin verði sem bezt, verður hundurinn að liggja í réttum stellingum og það er tæpast gerlegt nema að hann sé svæfður. FCI (Alþjóðleg samtök hundaræktarfélaga) beinir því þeim tilmælum til aðildarlanda sinna að svæfa hunda fyrir mjaðmamyndatöku, en samtök norrænu hundaræktarfélaganna (NKU) sem Hundaræktarfélag Íslands er aðili að, krefjast þess einfaldlega.

Þegar myndin er tekin, er hundurinn látinn liggja á bakinu og skorðaður af til þess að hann liggi beinn. Afturfæturnir eru strekktir aftur, snúið innað og haldið samsíða svo hnén vísi beint upp og komi fram á myndinni. Áður en myndin er tekin, verður að vera búið að setja inn á hana auðkenni hundsins, þ.e. örmerki hans ásamt dagsetningu og merki um hvað sé hægri eða vinstri hlið. Annars er myndin endursend.

Hundaræktarfélag Íslands sendir röngenmyndir til aflestrar til Noregs og liggur niðurstaðan fyrir að meðaltali innan 3ja vikna. Ættbók hundsins er send með myndinni, því dýralæknirinn sem dæmir ástand mjaðmaliðanna, færir niðurstöður aflestrarins í hana.

Hér á stofunni biðjum við hundeigandann að koma með ættbókina þegar komið er með hund í myndatöku (ásamt 1500 krónum sem Hundaæktarfélagið tekur í afgreiðslugjald) sem sparar hundeigandanum snúning með ættbókina á skrifstofu HRFÍ.  Við afhendum svo myndina persónulega á skrifstofu félagsins, svo engin hætta sé á að hún týnist á leiðinni.

Mjaðmaliðurinn er kúluliður sem er samsettur úr kúptu, hálfkúlulaga lærleggjarhöfði og djúpum, íhvolfum augnkarlinum og í heilbrigðum lið er hreyfingin er eins og „smurð“.

Fyrstu einkenni mjaðmaloss sem sjást á röntgenmynd er að augnkarlinn grynnist og lærleggshöfuð verður flatara. Alvarlegast er mjaðmalosið þegar augnkarlinn er nánast horfinn og afmyndað lærleggshöfuðið liggur utan augnkarlsins.

Hvernig eru röntgenmyndir dæmdar?

Röntgenmynd er dæmd eftir ástandi mjaðmaliðarins sem fær einkunn frá A-E. (Samkvæmt stöðlum FCI, Bretar hafa t.d. annað kerfi við mat á röntgenmyndum.) Þegar lærleggshöfuð og augnkarl passa fullkomnlega saman, fær liðurinn einkunnina A, en E þegar lærleggshöfuðið er nánast utan augnkarlsins.

Heilbrigður mjaðmaliður = A mjaðmir

Heilbrigður mjaðmaliður = A mjaðmir

Augnkarlinn grunnur = mjaðmalos

Augnkarlinn grunnur = mjaðmalos

Mjaðmalos á hæsta stigi = E mjaðmir

Mjaðmalos á hæsta stigi = E mjaðmir

Mjaðmalos er verulegt vandamál í mörgum hundategundum og því hafa ræktunardeildir sett  ræktendum strangar reglur um undaneldi til að reyna að minnka tíðni sjúkdómsins. Þá eru til dæmis settar þær kröfur, að undaneldisdýr hafi ekki verri mjaðmir en C.

Sé hundeigandinn ekki sáttur við niðurstöður aflestrarins, er hægt að mynda hundinn aftur, þó ekki fyrr en 6 mánuðum eftir fyrri myndatöku. Niðurstaða seinni aflestrarins gildir þá. Sé eigandinn enn ósáttur, er hægt að skjóta niðurstöðunni til áfrýjunarhóps norrænu hundaræktarfélaganna sem samanstendur af þeim dýralæknum sem dæma myndir fyrir þau. Hundaræktarfélagið sendir beiðnina til  Norska hundaræktarfélagsins sem sendir  myndina áfram og ræður niðurstaða meirihlutans úrslitum og er sú niðurstaða óhagganleg.

Meðferð

Mjaðmalos er ólæknandi sjúkdómur sem getur stytt líf hunds verulega. Erlendis eru gerðar flóknar aðgerðir. Stundum er lærleggshöfuð fjarlægt, en það er aðgerð sem ekki er mælt með nema í undantekningartilfellum og þá til þess eins að hundurinn verði verkjalaus. Einnig er mögulegt að skipta alveg um mjaðmaliði, sem er auðvitað afskaplega flókin aðgerð og með misgóðum árangri.

Á þessari mynd sést hvernig condroitín virkar á bilað liðbrjósk

Á þessari mynd sést hvernig condroitín virkar á bilað liðbrjósk

Mikilvægasta meðferðin við mjaðmalosi felst í því, að hundinum líði vel meðan stætt er og til þess höfum við góð verkjalyf. Á markaðnum eru svokölluð NSAID verkjalyf (Nonsteroid antiinflamatory drug) sem hafa gert gæfumuninn í verkjameðferð og  gera daglega líðan hundsins bærilega. Einnig er komið á markaðinn fóður sem inniheldur Condroitin og virðist það bæta líðan hunda með mjaðmalos og slitgigt.

Hjá gömlum hundum með slitgigt felst meðferðin einnig fyrst og fremst í verkjameðferð.

Á dýralækningastofunni hér í Skipasundi eru fullkomin röntgentæki og við myndum allar tegundir hunda.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Comments are closed.