Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Kanínur

Höfundur: • 23. okt, 2003 • Flokkur: Kanínur og nagdýr
Rauða svæðið er spánn

Rauða svæðið er spánn

Kanínur eru vinsæl gæludýr sem tilheyra fjölskyldu héra (leporidae) og er vísindaheiti þeirra Oryctolagus cuniculus sem þýðir einfaldlega „grafarinn sem líkist héra og grefur neðanjarðargöng“.

Uppruna evrópsku villikanínunnar má rekja til Spánar (Íberíuskagans) um 4000 ár aftur í tímann og fyrstu frásagnir um að þær hafi verið í haldi manna eru frá dögum Rómverja við komu þeirra  til Spánar nokkrum öldum fyrir Krist. Þeir reyndu að hemja kanínur innan girðingar, en frekar árangurslítið, því þær voru auðvitað fljótar að grafa sig út. Auknar samgöngur milli landa áttu svo sinn þátt í útbreiðslu kanína um allan heim og vaxandi akuryrkja manna skapaði þeim ágæt lífsskilyrði hvarvetna og þeim fjölgaði ört.

Málverk listmálarans Titans, "Madonna með kanínu", sem var málað árið 1530, er fyrsta þekkta myndin með kanínu.

Málverk listmálarans Titans,

Talið er upphaf neyzlu manna á kanínukjöti stafi frá miðöldum þegar munkar fóru að halda kanínur til matar, en nýfæddir kanínuungar töldust ekki vera kjöt og mátti því neyta á páskaföstu! Skömmu síðar hófst markvisst val undaneldisdýra og ræktun í þeim tilgangi að fá fram nýja liti. Á tímum iðnbyltingarinnar fluttust þær svo með eigendum sínum til borganna, enda voru þær þeim mikilvægar til matar, en kanínupar getur gefið af sér um 90 kíló af kjöti árlega.

Á 19. öldinni urðu svo sem betur fer breytingar til batnaðar fyrir kanínur, því þá hófst áhugi manna á ræktun þeirra til sýninga og keppni.

Kanínur

Kanínur hafa 4 framtennur í efri kjálka, andstætt öðrum nagdýrum sem hafa þar aðeins tvær framtennur. Í neðri kjálka eru tvær framtennur, auk jaxla. Tennur nagdýra eru rótlausar sem þýðir að þær vaxa jafnharðan því sem þær eyðast.

Kanínur eru „gervi“ jórturdýr að því leyti, að þær éta hluta saursins beint úr endaþarmi. Þó þetta sé þekkt fyrirbæri hjá flestum nagdýrum, er þessu nokkuð öðruvísi farið hjá kanínum. Hjá þeim er reglan sú að þær éta saurinn ávallt snemma morguns. Sá saur er öðruvísi útlits en saurinn á öðrum tímum sólarhringsins og samanstendur af litlum en slími þöktum kúlum með ljósgrænni áferð og sætri lykt. Á öðrum tímum skilja þær eftir sig „eðlilegan“ saur sem þær éta ekki. Þess vegna verða eigendurnir sjaldnast varir við átið sem hefst hjá 2ja til 3ja vikna gömlum dýrum, þ.e. um leið og þeir byrja að éta fasta fæðu. Kanínur nýta því fóðrið afskaplega vel, sem gerir þeim jafnframt kleift að dvelja í jarðholum í lengri tíma, án þess að svelta.

Kanínur eru yfirleitt meðfærileg dýr, þó fyrir komi að einstaka þeirra geti verið árásargjarnar og bitið og klórað. Ástæðan er þá fremur hræðsla eða streita, því kanínur eru viðkvæmar og bregðast illa við, séu þær handleiknar óþægilega. Mikilvægt er að fara hægt og rólega að kanínum og aldrei þvinga þær. Eigi að lyfta þeim upp, er tekið í hnakkadrambið eða hönd sett undir bringuna, haldið um framfætur og stutt vel við afturhlutann. Nái þær að brjótast um, getur það leitt til alvarlegra áverka á hrygg eða mjöðmum með varanlega lömun í kjölfarið og jafnvel hjartabilun.

Nokkrar líffræðilegar staðreyndir um kanínur

Meðalaldur: 5 – 13 ár
Þyngd: 1 – 8 kg
Líkamshiti: 38.5° – 40.0°C
Púls: 220 – 325/mín.
Andardráttur: 32 – 100 á mínútu
Meðganga: 29 – 33 dagar
Venja undan: 4 – 6 vikur
Fjöldi unga í goti: 2 – 12, að jafnaði 6
Vatnsþörf: 50 – 100 ml á kg. líkamsþunga á dag.
Fóðurþörf (fullorðin dýr): 50 – 100 g á kg. líkamsþunga
Tennur: Efri kjálki: 4 framt., 0 vígtönn, 3 framjaxlar, 3 jaxlar
Neðri kjálki: 2 framtennur, 0 vígtönn, 3 framjaxlar, 3 jaxlar

Búr og búrastærðir

Innibúr

Innibúr

Á markaðnum eru margar gerðir búra ætlaðar kanínum og margir smíða líka búrin sjálfir. Stærð búranna ræðst af stærð dýranna. En eftirfarandi tafla sýnir lágmarksstærð kanínubúra.

Gólfflötur (m2) Gólfflötur á dýr (m2) Hæð búrs (m)
Kanínur < 1,8 kg 0,25 0,12 0,3
Kanínur 1,8–3 kg 0,5 0,25 0,4
Kanínur 3–5,0kg 0,7 0,35 0,5
Kanínur > 5,0kg 0,9 0,45 0,6

Þrátt fyrir ofangreinda, uppgefna lágmarkshæð búrsins, ætti það auðvitað ekki að vera lægra en svo að kanínan geti staðið á afturfótunum án þess að reka eyrun upp í loft búrsins.

Aðbúnaður

Kanínur geta vel búið úti allan ársins hring, en þá þarf einnig að tryggja þeim góðan húsakost sem skýlir þeim gegn kulda, dragsúg og bleytu.

Búrin þarf því að einangra vel gegn gólfkulda og í þeim verður einnig að vera gott afdrep sem þær geta leitað skjóls í, haldið á sér hita á vetrum, varist mikilli sól og hita á sumrin og haft frið fyrir utanaðkomandi áreiti, t.d. öðrum (og óvinveittum) dýrum.

Kanínur þola illa mikinn hita og hærri hiti en t.d . 26°C getur valdið hitaslagi og dauða.

Séu kanínur inni þarf að gæta þess að þær séu ekki hafðar þar sem gætir dragsúgs og mikillar sólar. Best er að hafa búrin í 50 sm hæð frá gólfi. Hitastig í vistarverum þeirra má ekki vera lægra en 7°C og ekki hærra en 25°C. Undirburður í búrum verður ávallt að vera hreinn og úr viðeigandi efni, svo sem kvoðulaust sag, hey, hálmur eða annað hentugt efni.

Ekki ætti að halda tvö eða fleiri karldýr í sama búri, því þeir slást og geta slasað hverja aðra til ólífis. Karl – og kvendýr ætti einnig að halda aðskildum, en hægt er að hafa kvendýr saman, hafi þau verið saman frá fæðingu.

Hreinlæti

Mikilvægt er að hafa búrið alltaf hreint

Mikilvægt er að þrífa kanínubúr vel, helst daglega, og halda þeim alltaf hreinum sem þá minnkar einnig möguleika á sníkjudýrasmiti (hníslasótt). Einnig þarf að halda fóður- og drykkjarílátum hreinum.

Fóður og vatn

Auðvelt er að fóðra kanínur með tilbúnum, alhliða fóðurblöndum sem innihalda a. m. k. 16 – 18% prótín og 14 – 16% tréni. Lægra innihald prótína hindrar eðlilegan vöxt og viðhald, en hærra innihald þess getur hins vegar orsakað meltingartruflanir. Of lítið tréni eykur líkur á niðurgangi og að dýrin nagi í sig feldinn, en of hátt tréniinnihald gerir fóðrið orkusnauðara sem getur leitt til vanfóðrunar og minni frjósemi.

Dagleg fóðurþörf kanína er 4 – 5% af líkamsþunga dýrsins sem samsvarar 120 – 200 g af tilbúnu fóðri fyrir 3 – 4 kg þunga kanínu. En kanínur með unga á spena þurfa auðvitað meira fóður og verður fóðuraukningin að miðast við fjölda unga og aldur.

Þó tilbúin fóðurblanda uppfylli fóðurþörf kanína, er líka afskaplega gott að gefa þeim daglega viðbót og þá grófmeti eins og hey, gras (ekki snöggklippt), fífla, kál, salat og grænmeti, t.d. rófur og gulrætur. Slík viðbót eykur fjölbreytni fóðursins og er um leið ágætis afþreying fyrir dýrin.

Gæta verður vandlega að því að grænmeti og ávextir sé óskemmt og að athuga að allar fóðurbreytingar, sérstaklega séu þær snöggar, geta valdið meltingartruflunum. Eigi að breyta fóðri verður að gera það hægt og rólega.

Dagleg vatnsþörf kanína er 10% af líkamsþunga (80 – 100 ml á kg líkamsþunga), en er mun meiri hjá mjólkandi dýrum og í er hámarki þegar mjólkurframleiðslan er mest, þ.e. 3 vikum eftir got. Best er að hafa vatnsflösku í búrinu með stút úr ryðfríu stáli.

Mjög gott er að gefa kanínum ferskar greinar af lauftrjám til að stuðla að eðlilegu tannsliti – og ekki síður til afþreyingar.

Æxlun

Kanínuungar

Kanínuungar

Kanínur verða að jafnaði kynþroska 4 – 6 mánaða. Gangferill kanína er ekki reglulegur en gangmálið (estrus) getur varað lengi, þó egglos eigi sér aðeins stað parist kerlingin. Kanínur geta sýnt einkenni gervifrjóvgunar sem varir í u. þ. b. 18 daga. Þá stækka júgur og þær geta byrjað að gera sér bæli.

Þegar para á kanínu á alltaf að færa kerlinguna til karlsins, því annars er hætta á að hún ráðist á hann í stað þess að sinna kynþörfum sínum. Minni líkur eru reyndar á að egglos eigi sér stað, sé kvendýrið líkamlega illa á sig komið eða haldið streitu, með unga á spena eða í háralosi.

Meðgangan varir 29 – 33 daga (að jafnaði 31 dag) og unnt er að finna fóstur með þreifingu 10 – 14 dögum eftir pörun – eða með ómskoðun.

Örfáum dögum og jafnvel aðeins fáum klukkustundum fyrir fæðingu reytir kerlingin ull af kvið og síðum til hreiðurgerðarinnar.

Það verður að tryggja móðurinni gott  næði og góðan aðbúnað, bæði í fæðingu og fyrstu vikurnar á eftir. Streita getur haft afar slæm slæm áhrif á dýrið og ungana, svo koma verður í veg fyrir of mikinn  umgangur gesta og gangandi á þessum tíma.

Ungarnir fæðast hárlausir og blindir en opna augun 8 – 10 daga.

Athugið að ekki má taka kanínuunga yngri en 4 vikna undan móður.

Algengar ástæður sjúkdóma eða kvilla

  • Kerlingin sinnir ungunum ekki nægilega vel
  • Streita
  • Ekki nægileg aðgát og umönnun
  • Veikindi eða óhæfni foreldranna
  • Val á lélegum undaneldisdýrum
  • Uppruni kanínanna óþekktur (hugsanlega veik)
  • Ungar teknir of fljótt undan
  • Of margar kanínur í búrinu
  • Kanínan lasin án þess að því hafi verið gefinn gaumur
  • Veik dýr ekki aðskilin frá heilbrigðum dýrum
  • Búr og/eða hreiðurkassi of lítill
  • Loftræsting léleg  (trekkur, raki, of heitt)
  • Skortur á góðu skjóli
  • Skortur á hreinlæti í búri, hreiðurkassa eða óhrein vatns- og matarílát
  • Fóður lélegt eða skemmt (myglað, úldið eða gerjað)
  • Offóðrun/vanfóðrun/röng fóðrun
  • Óregluleg fóðrun

Helztu sjúkdómseinkenni

eru depurð, lítil lyst eða engin, hangandi haus, deyfð og sljóleiki. Kanínan er döpur til augnanna, andar hraðar og getur gníst tönnum. Merki um niðurgang, útferð frá augum eða trýni , sýkt sár eða feldlausir blettir á húð.

Mikilvægt er að leita dýralæknis strax og grunur vaknar um að kanínan geti verið lasin.

Afþreying og umönnun

Gott búr til að fara með út í garð

Gott búr til að fara með út í garð

getur verið með ýmsu móti, en er mjög nauðsynleg ekkert síður en hjá öðrum gæludýrum. Dagleg nærvera og umhyggja er mikilvæg og einnig að dýrin hafi möguleika á að hreyfa sig frjáls og óheft á góðu svæði sem er velafgirt. Það er ekki nóg að hafa kanínu svo vikum, mánuðum eða jafnvel árum saman í (litlum) kassa t.d. á svölum.

Kanínur geta haft gaman af þrautum og í dag hefur svokalluð „kanínufimi“ eða „kanínuhopp“ rutt sér til rúms og er jafnvel keppt í íþróttinni. Heimsmet í kanínuhoppi yfir þraut mun vera 99.5 cm!

Hopp yfir hindrun

Hopp yfir hindrun

Gaman að vega salt

Gaman að vega salt

Lesið meira um kanínuhopp!
http://www.dinkanin.dk/hop.html
http://www.rabbitagility.com

Ábyrgð foreldra

á gæludýraeigna barna og unglinga er mikil. Nærvera, góð umönnun, rétt fóðrun og aðbúnaður er undirstaða velferðar kanína sem eru ekki leikföng frekar en önnur gæludýr. Því miður virðast foreldrar ekki alltaf fylgjast nógu vel með kanínum á vegum barna sem eru látin sjá um þær, en börn gera sér ekki alltaf grein fyrir þeirri ábyrgð sem gæludýrahald krefst.

Dýralæknar verða því miður stundum varir við að kanínur eru jafnvel hafðar í kofum einhvers staðar afsíðis, eru stundum sameign fleiri barna og þá er heldur ekki ákveðinn ábyrgðarmaður sem fylgist með daglegri umönnun og velferð dýranna. Meðallífaldur kanína er 7 ár, svo það er töluverð ábyrgð og binding að gefa börnum  (eða leyfa þeim að eignast) kanínur. En sé vel að málinu staðið getur kanína verið einstaklega skemmtilegt og gefandi gæludýr.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd