Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Laukurinn og Ugla litla

Höfundur: • 21. feb, 2007 • Flokkur: Almennt
Ugla litla sárlasin

Ugla litla sárlasin

Hverjum gæti nú dottið í hug að smábiti af lauk væri annað en tóm hollusta? En það er öðru nær, því laukur er hættulegur mörgum dýrategundum og sérstaklega köttum. Laukurinn veldur alvarlegu blóðleysi og sé hans neytt í of miklum mæli, getur blóðleysið jafnvel dregið dýrið til dauða.

Í byrjun febrúar hringdi eigandi Uglu, lítillar chihuahuatíkur um kíló að þyngd, hingað á stofuna því hann hafði veitt því athygli að þvagið frá henni var blóðlitað. Að sögn hans var Ugla að öðru leyti hress og át og drakk, en reyndar fylgdi það sögunni að Ugla hefði tveimur dögum áður komist í ruslapoka heimilisins og örugglega étið úr honum eitthvað af viðbrenndum lauk!

Við skoðun reyndist Ugla ekki neitt sjáanlega lasin, en fékk viðeigandi meðferð í þeirri von að ekki hlytist verra af laukátinu. Næstu daga var Ugla enn hress og át, en 5 dögum seinna versnaði henni til muna, skjögraði, var móð og þróttlaus og slímhúðir voru hvítar. Ljóst var nú að um laukeitrun væri að ræða, svo ákveðið var að leggja hana inn og byrja á að gefa henni vökva í æð. Mæling á hematókríti (= magn rauðra blóðkorna í blóði) var töluvert undir lægstu mörkum normalgildis (eðlileg lægri mörk hunds eru 37%).

En Uglu hrakaði meir og hematókrítið lækkaði hratt og var komið niður í 9% á föstudagsmorgni, viku eftir að Ugla komst í ruslapokann og slímhúðir voru orðnar postulínshvítar. Við litun á blóðstroki sáust svokölluð „Heinz bodies“ sem eru m.a. einkennandi fyrir blóðleysið af völdum laukeitrunar. Þar sem Uglu hrakaði svona hratt, var ljóst að bregðast þyrfti skjótt við ætti að bjarga lífi hennar og var því ákveðið að gefa henni blóð.

Ronja blóðgjafi stóð sig eins og hetja

Ronja blóðgjafi stóð sig eins og hetja

Svo heppilega vildi til að eigandinn átti einnig stóra tík sem var tæp 40 kg á þyngd, en forsenda þess að unnt sé að nota hund sem blóðgjafa er að hann sé a.m.k. 35 kg.

Þar  sem hundar eru allir í sama blóðflokki er sjaldnast nokkur áhætta við blóðgjöf, þó ekki sé alveg hægt að útiloka það. Stóra tíkin hún Ronja stóð sig eins og þaulvanur blóðgjafi og var fjallhress að lokinni blóðtöku.

Blóðgjöfin gekk einnig afskaplega vel og sýndi Ugla engin merki þess að hún þyldi ekki blóðið sem var dælt afar hægt í æð.  Nokkrum klukkustundum  síðar hafði hematókrítið hækkað í 18% og þegar Ugla hafði fengið sinn skammt var það um 24%. Slímhúðir höfðu fengið á sig mun betri lit og Ugla virtist öll sprækari og gekk nánast eðlilega. Batinn kom nú ótrúlega fljótt og vel og 10 dögum eftir blóðgjöfina hafði Ugla alveg náð sér.

Sjúklingurinn var til fyrirmyndar

Sjúklingurinn var til fyrirmyndar

Laukur

Nota verður hvítlauk með varúð

Nota verður hvítlauk með varúð

Laukur þykir sennilega ómissandi til matargerðar á flestum heimilum og bragðast flestum jafnvel hvort heldur sem hann er steiktur. soðinn eða hrár.

Laukurinn sem tilheyrir ættkvísl lauka Allium spp og liljuættinni Liliaceae er ekkert síður vinsæll í dag en fyrir nokkrum árþúsundum í Mið-Asíu þaðan sem hann er talinn upprunnin. Hvítlaukur er einnig af liljuættinni og er því efnafræðilega skyldur lauknum.

Laukur og hvítlaukur eru taldir hin mesta hollustufæða fyrir okkur mannfólkið, en það á hins vegar alls ekki við um dýr. Éti þau lauk er veruleg hætta á eitrun og jafnvel mjög alvarlegri eitrun.

Sennilega er ekki algengt að hundar og kettir séu fóðraðir á laukkrydduðum mat, en þar sem laukur þykir bragðbætandi er hann mikið notaður í tilbúin matvæli sem er ekki víst að kaupandinn geri sér grein fyrir og gefi því dýrinu sínu óafvitandi eitthvað með lauk í – eða bara afgangs pizzusneið!

Þó hvítlaukur sé skyldur lauknum, er hann ekki alveg eins hættulegur og venjulegur laukur og er jafnvel stundum notaður í lækningaskyni. Sé það gert verður hins vegar að nota hann af ítrustu varúð – í litlu magni.

Hvers vegna er laukur hættulegur?

Þó laukur sé ríkur m.a. af  B og C vítamínum, próteinum, sterkju og  lífs-nauðsynlegum frumefnum, inniheldur hann líka hættuleg brennisteinssambönd sem brotna m.a. niður í dipropenyl-dísúlfið, en það er efnið sem er mjög hættulegt því það eyðileggur rauðu blóðkornin í blóðinu og veldur blóðleysi.

Og það er alveg sama hvort um er að ræða stöngul, laukinn sjálfann eða blómin eða hvort hann er hrár, soðinn eða steiktur, þá er hann alltaf jafn hættulegur.

Rannsóknir hafa sýnt að að hundur geta fengið einkenni laukeitrunar éti hann  5 – 30 g af lauk  á hvert kg. líkamsþunga, sem svarar til þess að 10 kg hundur þurfi að éta 50 – 300 g.

Blóðleysið  stafar sem sé af skorti á rauðum blóðkornum í blóðinu vegna skemmdanna sem  dipropenyl-dísúlfiðið í lauknum veldur.

Hlutverk rauðu blóðkornanna er að flytja súrefni með blóðinu til frumnanna í líkamanum, en þær nota súrefnið til brennslu og orkuframleiðslu. Þegar rauðu blóðkornunum fækkar óeðlilega, skortir frumurnar auðvitað orku til starfsemi sinnar og þá koma fram einkenni súrefnisskorts sem eru m.a. orkuleysi, þreyta og jafnvel dauði.

Einkenni

"Heinz bodies" eru dökku dílarnir í blóðkornunum

"Heinz bodies" eru dökku dílarnir í blóðkornunum

og alvarleiki laukeitrunarinnar fara auðvitað eftir því hversu mikið dýrið hefur étið, en einkennin koma venjulegast ekki fram fyrr en 2 dögum eftir átið. Fyrstu einkenni eru oftast blóð í þvagi, fölar slímhúðir, máttleysi og deyfð, mæði og ör hjartsláttur. Uppköst, lystarleysi og jafnvel niðurgangur getur einnig sést ásamt rammri lauklykt.

Einkennandi fyrir þessa tegund blóðleysis eru svokölluð ,,Heinz bodies“ en það er óeðlilegur blóðrauði sem er innlyksa í rauðu blóðkornunum og sést við litun á blóðstroki. Hematókrít er langt undir neðri mörkum, en eðlilegt hematókrít er 37 – 55% hjá hundum og 30 – 45% hjá köttum.

Köttum

er hættara við að fá alvarlega laukeitrun en hundum, vegna þess að rauðu blóðkornin í blóði þeirra eru sérstaklega viðkvæm fyrir dipropenyl-dísúlfiði.

Mikilvægt er því að hunda- og kattaeigendur séu mjög vel á verði þegar þeir kaupa annan mat en viðurkenndan mat handa hundinum eða kisu og lesi vandlega allar innihaldslýsingar. Sama gildir við kaup á heilsu- og  lækningalyf úr jurtaríkinu, jafnvel þó séu ætluð gæludýrum, því í þeim gæti auðveldlega leynzt laukur. Benda má á, að margar tegundir barnamatar í glösum innihalda lauk.

Meðferð

Alvarleg laukeitrun getur verið banvæn. Geri eigandinn sér strax grein fyrir því að hundurinn eða kötturinn hafi étið lauk í einhverju mæli (innan 2ja klukkustunda), er mögulegt að tæma magasekkinn með uppsölulyfi. Mæla verður hematókrítið reglulega í marga daga eftir laukátið til að meta ástandið og hvort og þá hvenær  sé nauðsyn á blóðgjöf.

Uppköst og/eða niðurgangur er meðhöndlað með vökva í æð, en einnig er mjög mikilvægt að fóðra dýrið með  hollu og næringarríku fóðri, því rannsóknir hafa sýnt að það hefur góð áhrif á endurnýjun blóðsins.

Í flestum tilfellum er blóðgjöf ekki nauðsynleg því sem betur fer fer fjöldi rauðra blóðkorna að aukast hægt og sígandi 10 – 14 dögum eftir laukátið og flestir sjúklingarnir ná góðum bata – og líka þeir sem þurfa á blóðgjöf að halda.

ATHUGIÐ!

Talið er að í 15 g af páskaliljulauki sé nægt eitur til að drepa meðalstóran hund!

Talið er að í 15 g af páskaliljulauki sé nægt eitur til að drepa meðalstóran hund!

Vor- og haustlaukar eru margir hverjir af liljuætt eins og t.d. páskaliljur og eru því  eitraðir. Gæta þarf þess að hundar, og sérstaklega hvolpar, nái ekki í blómlauka þegar verið er að setja þá niður. Fylgjast þarf með hvolpum í garðinum, því lítill og forvitinn hvolpur getur skemmt sér afskaplega vel við að grafa blómalaukana upp og éta með góðri lyst.

Heimildir

  • Onion Breath. D. M. Simmon, LVT. Veterinary Technician, Aug. 2001, o.fl., o.fl.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd