Bogfrymlasótt – áhættusöm fyrir vanfærar konur?
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 15. feb, 2006 • Flokkur: KettirBogfrymlasótt er venjulegast einkennalaus sjúkdómur og ekki hættuleg heilbrigðum einstaklingum sem mynda mótefni gegn honum á 1 – 2 vikum.
Hjá varnarskertum einstaklingum, og þunguðum konum, getur bogfrymlasótt hins vegar verið hættulegur sjúkdómur og getur í verstu tilfellum valdið alvarlegum skaða á fóstri og jafnvel fósturláti.
Tíðni smits er misjöfn eftir löndum, en skortur á hreinlæti, ásamt neyzla á hráu eða lítt elduðu kjöti á stóran (stærstan?) þátt í sýkingum manna.
Sjúkdómsvaldurinn
er frumdýrið bogfrymill (toxoplasma gondii) sem fjölgar sér inni í kyrndum frumum allra blóðheitra dýra og fugla.
Lífsferill bogfrymilsins var mönnum lengi mikil ráðgáta og það eru ekki ýkja margir áratugir síðan það kom í ljós hvernig flóknum lífsferli hans er háttað. Árið 1970 fundust loks þolhjúpaðar okfrumur (egg) í kattasaur og varð sá fundur til þess að varpa ljósi á flókinn lífsferil bogfrymilsins. Þar með var það einnig staðfest að kettir og dýr af kattaætt eru einu endahýslar sníkjudýrsins sem getur aðeins orðið kynþroska í þörmum kattadýra og þ.a. l. aðeins myndað okfrumurnar þar, en þær eru smitefnið sem dreifist um umhverfið með saurnum.
Það er þess vegna sem kötturinn er mikilvægasti hlekkurinn í viðhaldi og útbreiðslu smitefnisins.
Lífsferill og hringrás
bogfrymilsins er afar flókinn því hann getur bæði fjölgað sér með kynskiptri fjölgun (aðeins í meltingarvegi kattanna) og með kynlausri fjölgun bæði í köttum og öllum tegundum millihýsla.
Okfrumurnar, eggin, sem skiljast út með kattasaurnum menga umhverfið, jarðveg og vatn. Þær eru afar vel varðar gegn veðri og vindum (með þolhjúp) og geta lifað í umhverfinu svo mánuðum og jafnvel árum skiptir við kjöraðstæður.
Okfrumurnar verða hins vegar ekki smithæfar fyrr en 2-3 (1-5) dögum eftir að þær ganga niður af kettinum, því þær þurfa fyrst að mynda gró, en myndun þess er háð hita- og rakastigi.
Kettir smitast aðeins einu sinni á lífsleiðinni af bogfrymlasótt, en veikjast hins vegar afar sjaldan af sjúkdómnum og eru því heilbrigðir og einkennalausir smitberar. Þremur til ellefu dögum eftir að kisa smitast, byrja okfrumurnar að skiljast út með saurnum og gera það næstu 2 – 3 vikurnar eða á meðan ónæmiskerfi kattarins er að virkjast. Á þeim tíma skiljast út tugmilljónir eggja og síðan aldrei meir.
Erlendar rannsóknir sýna, að á hverjum tíma ganga þolhjúpaðar okfrumur með saur frá 1 – 2% af köttum og geta þær lifað í umhverfinu í mánuði til ár við kjöraðstæður.
Eins og allir vita er það nær ómögulegt fyrir fólk að varast kattasaur í umhverfinu, því kettir hafa þann háttinn á að moka yfir saurinn og lykt, litur og útlit hans breytist á skömmum tíma í rökum jarðvegi.
Smitleiðir
eru margar, bæði í menn og dýr. Á myndinni sést hvernig smitið dreifist um umhverfið frá kisu, en upphafið er þegar:
- Egg bogfrymilsins, þolhjúpuðu okfrumurnar, ganga út með kattasaurnum í kattasandinn og/eða umhverfið (jarðveg og vatn).
- Þaðan geta eggin borizt í millihýsla sem geta verið nagdýr og fuglar, grasbítar – og menn.
- Maðurinn getur líka smitast af smituðum millihýslum (vefjablöðrum) og menguðu grænmeti og vatni.
Hætta á smiti er lítil, og nánast engin, frá köttum sem að staðaldri er haldið inni og fá aldrei tækifæri til að veiða eða komast í mengað umhverfi.
Fari kisa hins vegar út og hugsanlega veiði og éti bráðina – og smitist, minnkar hættan á smiti í fólk verulega sé sandkassinn hreinsaður daglega, því eggin verða ekki smithæf fyrr en 2 – 3 dögum eftir að þau ganga niður af kettinum.
Hættan á smiti er sem sagt mun meiri frá „útiköttum“ og sérstaklega þeim sem eru veiðnir, sem og ungum köttum sem eru nýbyrjaðir að fara út og nýsmitast.
Íslenzk rannsókn sýndi að algengi mótefna gegn bogfrymlum í blóði útikatta er 27% hér í Reykjavík, en 30.2% á landinu öllu.
Algengi mótefna í reykvízkum inniköttum (þ.e. innikatta þegar rannsóknin var gerð) er hinsvegar aðeins 6.2%.
Með okfrumum (eggjum)
Þegar smithæf egg berst ofan í einhvern millihýslanna, mann, grasbít, nagdýr eða fugl, leysast þau upp í meltingarvegi hans og verða að sníklum (tachyzoit). Sníklarnir fara með blóðstraumnum út um líkamann, taka sér bólfestu í frumum margra líffæra og mynda þar vefjablöðrur sem er hvíldarform sníkilsins (bradyzoit) og geta fundizt í þeim í þúsundatali eftir stærð vefjablöðrunnar.
Með vefjablöðrum
Þegar maður eða dýr innbyrðir vefjablöðrur t..d. í illa soðnu eða hráu kjöti, á sama ferlið sér stað; vefjablaðran leysist upp í meltingarveginum og sníklarnir dreifast um líkamann og mynda vefjablöðrur á nýjan leik.
Vefjablöðrurnar halda velli ævi hýsilsins á enda, en geta virkjast síðar á ævinni og valdið sýkingu fái einstaklingurinn ónæmisbælandi sjúkdóm, ella heldur ónæmiskerfið sýkingunni í skefjum.
Smit í fólk
Undir venjulegum kringumstæðum er helzta smitleið bogfrymla í menn með menguðum matvælum eða drykkjarvatni, sýktu kjöti (með vefjablöðrum) og um fylgju til fósturs. (Sjá mynd af smitleiðum hér að ofan).
Grænmeti og ávextir geta einnig verið mengaðir okfrumum, því þær berast á grænmeti og ávexti með menguðu vatni eða jarðvegi.
Hjá fólki getur sjúkdómurinn birzt með ýmsum hætti, verið meðfæddur eða áunninn. Einkenni hans eru margvísleg og geta sum komið fram síðar á ævinni.
Talið er að bogfrymlasótt sé afar fátíð á Íslandi.
(Sjá Landlæknisembættið/skráningarskyldir sjúkdómar 1996 – 2004)
…og sauðfé
Sauðfé (og svín) er tiltölulega móttækilegt fyrir bogfrymlasýkingum, þó það sýni engin merki veikleika og því geta fundizt vefjablöðrur í lamba- og kindakjöti.
Helztu einkennin um bogfrymlasýkingar í sauðfé eru snemmbært fósturlát eða fæðing veikburða lamba. (Sjá forvarnir).
Forvarnir og fræðsla
er skilvirkasta og ódýrasta leiðin til að forðast smit með bogfrymlasótt. Mikilvægt er fyrir alla og sérstaklega fólki í áhættuhópum, þ.e. ófrískar konur og sjúklinga með ónæmisbælandi sjúkdóma, að gefa forvörnum verðugan gaum.
Á heimilinu:
- Gegnumsteikja allt kjöt (65°C) og smakka aldrei á hráu kjöti. (Ath. að það er alls ekki öruggt að smitefnið eyðileggist við frystingu, söltun, matreiðslu í örbylgjuofni eða þegar matvæli eru „grafin“).
- Þvo vel hendur og öll áhöld sem hafa komist í snertingu við hrátt eða lítið matreitt kjöt. Ekki snerta slímhúð (augu, nef, munn) með óþvegnum höndum.
- Þvo allt grænmeti og ávexti fyrir neyzlu.
- Fóðra ketti með þurrfóðri/dósamat og láta ekki láta einstaklinga í áhættuhópi hreinsa gamlan kattasaur úr sandkassa kattarins, og
- að þeir þvoi sér alltaf vel um hendur eftir að hafa snert kött.
Utanhúss:
- Vera með hanzka við garðvinnu (og snerta þá ekki slímhúðir munns, augna eða nefs með hönzkunum),
- Hafa lok á sandkössum barna og skipta um sand leiki minnsti grunur á að köttur hafi gert stykkin sín í sandkassann. Kenna börnum jafnframt að setja hvorki mold né sand í munninn.
Á sveitabæjum:
- Láta ekki ófrískar konur hjálpa til við sauðburð og
- halda köttum frá fóðurgeymslum og
- hlöðum og fjarlægja allan kattasaur úr útihúsum.
- Fóðra ketti á sveitabæjum með þurrmat/dósamat og
- koma í veg fyrir að þeir komist í dauð lömb/grísi eða fylgjur.
- Nota frekar eitur en ketti til að halda músagangi frá útihúsum.
Engin ástæða er til þess, verði kona þunguð og sé jafnframt kattaeigandi, að losa sig við kisu. Mikilvægast er að fara eftir ofangreindum varúðarreglum í hvívetna.
Hafi konan hins vegar áhyggjur af því hvort hún hafi einhvern tímann eða nýverið smitast af bogfrymlasótt, er réttast að fara fram á mótefna-mælingu í næstu mæðraskoðun. Mælist engin mótefni í blóðinu gegn bogfrymlasótt, telst hún í áhættuhópi.
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað